Fréttir

30.5.2012

Sumrinu fagnað

 

Grafíski hönnuðurinn Siggi Eggertsson hefur hannað vegglistaverk fyrir Hönnunarmiðstöð Íslands, sem málað verður á gafl húss Hönnunarmiðstöðvarinnar í Vonarstræti.

Myndefnið kemur í ljós á málningardeginum sjálfum, föstudaginn 1. júní. Málningarvinnan hefst kl. 9 og búist er við að henni ljúki fyrir kl. 17, þegar Hönnunarmiðstöð heldur opnunarteiti til að fagna verkinu og komandi sumri og eru allir velkomnir.

Þetta er fyrsta vegglistaverk þessa þekkta hönnuðar.

- Með þessu verki viljum við koma staðsetningu Hönnunarmiðstöðvarinnar á kortið, segir Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri.

Vegglistaverkið er áhugaverð viðbót við borgarrýmið í Reykjavík sem er þekkt á alþjóðlegum vettvangi götulistar, m.a. vegna verka eftir þekkta listamenn, hönnuði og arkitekta svo sem Söru Riel, The Mountain Series eftir Theresu Himmer að ógleymdum bindishnútum á vegg Herrafataverslunar Guðsteins.

Siggi Eggertsson, lærði grafíska hönnun við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist árið 2006. Hann hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum tengdum myndskreytingum, grafískri hönnun, leturgerð og hreyfimyndum fyrir viðskipavini á borð við Wallpaper, Wired, New York Times, Iceland Airwaves, Coca Cola, Nike, Nokia og Mulberry.

Siggi gerði myndskreytingar HönnunarMarsins 2011 og vann nýverið samkeppni um einkennismynd Listahátíðar Íslands 2012 sem má sjá um alla borg nú á meðan Listahátíð stendur sem hæst. Siggi býr í Berlín.

www.siggieggertsson.com
















Yfirlit



eldri fréttir