Fréttir

21.5.2012

Meistaranám í hönnun við LHÍ | Opið er fyrir umsóknir



Í haust hefst nýr kafli í listmenntun á Íslandi þegar Listaháskóli Íslands býður uppá alþjóðlegt meistaranám í listsköpun og hönnun á þremur námsbrautum. Um er að ræða tveggja ára meistaranám til 120 eininga í hönnun, myndlist og tónsmíðum.

Meistaranámið verður vettvangur fyrir listamenn og hönnuði til að dýpka og auka þekkingu sína í frjóu akademísku umhverfi en sérkenni meistaranáms í Listaháskólanum er návígi og samvinna nemenda á ólíkum fagsviðum lista.

Námið skiptist í sjálfstæða listsköpun á vinnustofum, málstofur, rannsóknir, fræðinám og meistaraverkefni.

Meistaranám í hönnun skapar vettvang til að dýpka þekkingu og efla færni til að takast á við fjölþætt hönnunarverkefni sem beina sjónum að aðkallandi viðfangsefnum í samtímanum. Í náminu er lögð áhersla á samþættingu hugvits og fagurfræði, tækni, vísindi og siðfræði til sköpunar efnislegra og huglægra gæða.

Lögð er áhersla á að takast á við óvenjulegar aðstæður í ljósi smæðar samfélags í víðfeðmu landi mikilfenglegrar náttúru með það að markmiði að móta lausnir sem gagnast stærri heild. Stærsta verkefni samtímahönnunar er að stuðla að sjálfbærri þróun.

Hönnun felur ávallt í sér samvinnu og samráð og meistaranám í hönnun skapar tækifæri til víðtæks samstarfs þvert á faggreinar. Námið skapar vettvang fyrir nemendur til að þróa aðferðafræði og verkferla til að koma hugmyndum í framkvæmd þar sem áhrif hönnunar stuðla að auknum lífsgæðum.

Nánari upplýsingar eru að finna á vef Listaháskóla Íslands.
















Yfirlit



eldri fréttir