Fréttir

14.5.2012

Menningarnæturpotturinn | Opið fyrir umsóknir




Menningarnótt verður haldin í sautjánda sinn þann 18. ágúst næstkomandi. Menningarnótt er hátíð sem allir borgarbúar skapa og upplifa saman, úti á torgum og götum miðborgarinnar, í bakgörðum eða söfnum, fyrirtækjum og ekki síst í húsunum í bænum.

Auglýst er eftir áhugasömum og frumlegum hugmyndasmiðum til þess að fylla inn í viðburðalandslag Menningarnætur 2012.

Á vefsíðu Menningarnætur www.menningarnott.is má bæði skrá sig til almennrar þátttöku sem og sækja um styrki. Opnað verður fyrir styrkumsóknir mánudaginn 11. maí en umsóknarfrestur rennur út mánudaginn 18. júní. Tekið verður á móti almennum umsóknum um þátttöku fram til 23. júli.

Þemað í ár er „Gakktu í bæinn“ og vísar til þeirrar gömlu íslensku venju að bjóða gesti sína velkomna og gera vel við þá. Þó að þemað megi gjarnan speglast í viðburðum hátíðarinnar þá er það ekki skilyrði þátttöku, tekið verður vel á móti öllum skrautlegum og skemmtilegum hugmyndum.

Menningarnæturpottur Landsbankans!
Veittir verða styrkir úr Menningarnæturpottinum, á bilinu 50-200 þúsund krónur, til einstaklinga og hópa sem hafa hug á því að skipuleggja fjölbreytta og áhugaverða viðburði á Menningarnótt.

Menningarnæturpotturinn er samstarfsverkefni Höfuðborgarstofu og Landsbankans sem verið hefur máttarstólpi hátíðarinnar frá upphafi. Rennur allur fjárstuðningur bankans til listamanna sem koma fram á Menningarnótt.

Nánari upplýsingar veita Guðmundur Birgir Halldórsson gummi@visitreykjavik.is og Karen María Jónsdóttir karen@visitreykjavik.is
















Yfirlit



eldri fréttir