Listaháskóli Íslands efnir til ráðstefnu um tengsl listsköpunar og rannsókna. Markmiðið er að skapa vettvang fyrir samtal akademískra starfsmanna skólans, stundakennara og annarra starfandi listamanna, hönnuða og fræðimanna um rannsóknir á sviðinu.
Ráðstefnan er sú fyrsta í árlegri röð Hugarflugs, þar sem varpað verður ljósi á þann fjölbreytileika sem einkennir nálgun, aðferðir og efnistök í þekkingarsköpun og –miðlun í listum og hönnun. Hún er mikilvægur liður í uppbyggingu listrannsókna við skólann og býður upp á tækifæri til umræðna, tengslamyndunar og almennrar miðlunar á þeim rannsóknum sem eiga sér stað á sviðinu.
Á dagskrá eru 12 málstofur með um 40 erindum sem á einn eða anna hátt fjalla um snertifleti rannsókna og listsköpunar, m.a. út frá myndlist, arkitektúr, sviðslistum, hönnun, tónlist, listkennslu, heimspeki, kyngervi, menningarstjórnun og sjálfsmyndum.
Ráðstefnan fer fram í nýju húsnæði hönnunar- og arkitektúrdeildar, Þverholti 11, kl. 9-17.15.
Dagskrá, ásamt útdráttum erinda, má sjá á nýjum og endurbættum vef skólans:
http://lhi.is/skolinn/rannsoknir/hugarflug/
Nánari upplýsingar gefur Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, forstöðumaður rannsóknaþjónustu LHÍ s. 699 7066