Fréttir

2.4.2012

Samstarfsverkefni íslenskra hönnuða og álframleiðenda í Svíþjóð

Fimm hönnuðir voru valdir úr hópi umsækjenda til að taka þátt í samstarfsverkefni íslenskra hönnuða og álframleiðanda í Svíþjóð. Lögð verður áhersla á að afla þekkingar á framleiðsluferlum sem ekki eru þekkt hér á landi.

Valnefnd var skipuð Dag Holmgren verkefnisstjóra, Garðari Eyjólfsson verkefnisstjóra, Laufeyju Agnarsdóttur f.h. Arkítektafélags Íslands, Agli Egilssyni f.h. Félags vöru- og iðnhönnuða og Ívu Rut Viðarsdóttur f.h. Félags húsgagna- og innanhúsarkitekta, auk Katrínar Dóru Þorsteinsdóttur frá Samtökum Iðnaðarins.

Valið var byggt á ferilskrá, reynslu, verkum og tengslum við innihald verkefnisins. Þekking á framleiðsluferlum í iðnaði, hæfileikar til að lesa í, snúa upp á og blanda saman verkferlum. Lagt var upp með að setja saman sterkan hóp sem gæti myndað líflegar samræður um innihald verkefnisins ásamt því að skapa sterka stefnu um framtíð þess. Þótti valnefnd mikilvægt að hönnuðir innan hópsins gætu lært hvor af öðrum og miðlað reynslu sín á milli.

Þeir fimm hönnuðir sem valdir voru eru:

  • Katrín Ólína Pétursdóttir, vöruhönnuður
  • Sigríður Heimisdóttir, iðnhönnuður
  • Snæbjörn Þór Stefánsson, vöruhönnuður
  • Valdimar Harðason, arkítekt
  • Þóra Birna Björnsdóttir, innanhúsarkítekt

Hönnuðirnir munu heimsækja ýmis iðnaðarfyrirtæki í Svíþjóð sem sérhæfa sig í álvinnslu. Einnig verða heimsótt framleiðslufyrirtæki sem vinna með textíl, við, stein, plast og fleira sem hægt er að nota með álinu. Lögð verður áhersla á að afla þekkingar á framleiðsluferlum (með sérstaka áherslu á ál) sem ekki eru þekkt hér á landi. Markmiðið er að flytja þekkingu til Íslands og koma á samstarfi og þekkingarmiðlun milli Norðurlandaþjóðanna.

Í framhaldinu vinna hönnuðir að hugmyndum sínum hér heima og gera í kjölfarið prótótýpur í samvinnu við valin sænsk framleiðslufyrirtæki.

Nánari upplýsingar er að finna hér.
















Yfirlit



eldri fréttir