Sem aldrei fyrr blása hönnuðir til hátíðar. Með yfir 100 viðburðum á rúmlega 60 stöðum opna 500 hönnuðir dyr um alla borg. Hvert sem litið er upplifa gestir ferska strauma, vor í lofti, glænýja skartgripi eða landbúnaðarafurðir, ný lönd eða bara HönnunarMarsipan.
Fjórir framsæknir hönnuðir stíga á svið á
fyrirlestradegi í HönnunarMars, fimmtudaginn 22. mars. Þema fyrirlestradagsins er samstarf þvert á greinar - mikilvægi þess að sækja sér þekkingu úr ólíkum áttum og deila sérþekkingu milli fagsviða. Þau
Marije Vogelzang, frumkvöðull á sviði matarhönnunar,
Tuomas Toivonen arkitekt og tónlistarmaður,
Koert van Mensvoort vísindamaður og listamaður hjá NextNature.net og
Hjalti Karlsson grafískur hönnuður munu vísa veginn daginn þann mót gjöfulu samstarfi þvert á greinar.
Meðal helstu nýjunga HönnunarMars í ár er glæsilegur dagskrárvefur,
honnunarmars.is, þar sem dagskrá hátíðarinnar eru gerð góð skil. Um leið er í fyrsta skipti öll dagskráin kynnt á ensku sem er í takt við aukinn straum erlendra gesta í HönnunarMars.
Erlendir gestir í HönnunarMars hafa aldrei verið fleiri. Von er á fjölda gesta; framkvæmdastjórum Hönnunarmiðstöðva Norðurlandanna allra, kaupendum frá fimm norrænum stórfyrirtækjum á kaupstefnuna DesignMatch, fjölda blaðamanna auk fulltrúa frá Helsinki hönnunarborg heimsins 2012.
Fjölmiðlafólk frá helstu blöðum og tímaritum hönnunarheimsins, sem og fréttapressan mæta og má þar nefna blaðamenn frá Wallpaper, Monocle, BluePrint og Architectural Review sem og veftímaritunum Dezeen and DesignBoom.
Fimm kaupendur hönnunar frá stórfyrirtækjum á borð við hin finnsku Iittala og Artek, hin sænsku Design House Stockholm og DFTS Factory og hið danska Onecollection eru einnig væntanlegir á
kaupstefnuna DesignMatch sem Hönnunarmiðstöð stendur fyrir nú í þriðja sinn í HönnunarMars. Kaupstefnan hefur nú þegar skapað íslenskum hönnuðum mikilvæg viðskiptasambönd.
Framkvæmdastjórar frá öllum Hönnunarmiðstöðvunum Norðurlandanna munu einnig koma til landsins í HönnunarMars og eru þar með í fyrsta skipti í áratugi að hittast formlega og stilla saman hina norrænu strengi. Það verður að teljast góður árangur að hin unga Hönnunarmiðstöð Íslands sé leiðandi í slíku samstarfi, en víða um heim er litið til hönnunar sem leiðina fram á við út úr alþjóðlegum þrengingum.
Og síðast en ekki síst koma til landsins sérstakir fulltrúar
World Design Capital Helsinki 2012 en HönnunarMars 2012 verður “satellite” verkefni World Design Capital Helsinki og gefst okkur tækifæri á að vekja athygli á þessum góða vorboða sem eftirsóknarverðri bæjarhátíð og hönnunarviðburði á heimsmælikvarða. Náið samstarf við World Design Capital Helsinki 2012 er feikimikið tækifæri fyrir hönnun á Íslandi til að ná athygli, varpa ljósi á möguleika okkar ungu hönnunarþjóðar.
Góða skemmtun í HönnunarMars!