Vinningshafar | Ljósmyndari: Valgarður Gíslason
|
NotKnot | Umemi
|
Skyrkonfekt | Designers and farmers - Rjómabúið Erpsstaðir
|
KRADS
|
Árleg vöruhönnunarverðlaun tímaritsins Reykjavík Grapevine voru afhent í annað sinn föstudaginn 9. mars, við hátíðlega athöfn í húsakynnum Hönnunarmiðstöðvar Íslands, sem er samstarfsaðili tímaritsins við framkvæmd verðlaunanna. Skyr Konfekt, Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir og KRADS hlutu verðlaunin að þessu sinni, í flokkunum vörulína ársins, vara ársins og verkefni ársins (sem er nýr flokkur).
Ragnheiður Ösp og vörulína hennar átti að mati dómnefndar vörulínu ársins, en hún á heiðurinn af NotKnot koddunum góðu sem hafa notið sívaxandi vinsælda meðal fagurkera og þykja mikið stofustáss. Segir í rökstuðningi dómnefndar að NotKnot sé „nýstárleg úrvinnsla á á íslensku ullinni, bráðfallegir koddar með skemmtilegt form,“ sem sýni „ sterka og sjálfstæða sýn frá skapandi íslenskum hönnuði,“ og sé „frábært dæmi um handgerða vöru sem er um leið á viðráðanlegu verði.“
Fyrir vöru ársins hlaut hópurinn að baki Skyr Konfekt viðurkenningu, en Skyr Konfekt er skilgetið afkvæmi Bændaverkefnisins, sem hafði það að markmiði að örva bændur til þess að skapa nýjar vörur í samstarfi við hönnuði. Í rökstuðningi sínum segir dómnefnd að Skyr Konfekt sé „vel úthugsað dæmi um það gagn sem hönnun getur gert samfélaginu[...], smekkleg og góð vara sem gerð er úr staðbundnu og lífrænu hráefni.“ Konfektið státar þar að auki af „bráðfallegum umbúðum sem henta innihaldinu einstaklega vel.“
Verkefni ársins er svo nýr flokkur í vöruhönnunarverðlaununum, en það var arkitektastofan KRADS sem hlaut viðurkenningu þar fyrir samstarfsverkefni þeirra við LEGO. Að mati dómnefndar er afraksturinn afbragðs dæmi um verkefni sem nær til allra og vekur áhuga á hönnun og umhverfi, „útlitslega sterk hugmynd sem fólk laðast náttúrulega að.“ Þykir verkefninu takast einkar vel að bæta nýrri og óvæntri vídd við merkingarþrungið vörumerki og útkoman sé tól til náms og nýsköpunar, „fögur blanda leiks og fagmennsku sem blæs nýju lífi í arkítektúr.“
Dómnefndin var skipuð hönnuðunum Herði Kristbjörnssyni (fyrir hönd Reykjavík Grapevine), Sari Peltonen (fyrir hönd Hönnunarmiðstöðvar Íslands), Auði Karítas frá versluninni Geysi, Hafsteini Júlíussyni hönnuði og Tinnu Gunnarsdóttir (fyrir hönd Vöruhönnunar við LHÍ). Dómnefnd voru settar þær skorður í vali sínu að verðlaunaðar yrðu vörur sem væru raunverulegir og áþreifanlegir hlutur, allt frá keramiki að skartgripum. Ákveðið var að útiloka fatahönnun úr menginu, en þó kom til greina að verðlauna fatalínur í flokkinum besta vörulínan. Skilyrði var og sett um að vörurnar hefðu komið fram árið 2011.
Útgefandi Reykjavík Grapevine, Hilmar Steinn Grétarsson, segir að markmið verðlaunanna sé að vekja athygli á því sem vel er gert og að styðja við bakið á ört vaxandi og gífurlega spennandi geira hér á landi. “Í gegnum starf okkar hjá Grapevine komumst við í tæri við mikinn fjölda skapandi hæfileikafólks og verðum vör við orkuna sem kraumar undir í skapandi greinum. Við viljum leggja okkar af mörkum til að styðja frekar við allt það góða starf sem unnið er á þessum vettvangi og þótti verðlaunaafhending og umfjöllun í kjölfarið skemmtileg leið til þess,” segir Hilmar.
Reykjavík Grapevine er nú á sínu tíunda útgáfuári, en nýtt hefti kom á göturnar sl. föstudag sem er sérstaklega helgað HönnunarMarsinum. Prýða stjörnuhönnuðirnir Hjalti Karlsson og Jan Wilker frá hönnunarstofunni karlssonwilker forsíðuna, sem þeir einnig hönnuðu, en lesa má ítarlegt viðtal við þá í blaðinu.
Nánari upplýsingar veitir
Hörður Kristbjörnsson, hönnuður og formaður dómnefndar
hristbjornsson@gmail.com - sími 865 2294
Hilmar Steinn Grétarsson, útgefandi Reykjavík Grapevine
hilmar@grapevine.is - sími 898 9249