Fréttir

7.3.2012

Umsóknir óskast | Samstarfsverkefni íslenskra hönnuða og álframleiðenda í Svíþjóð

 
 
Óskað er eftir hönnuðum og arkitektum í samstarfs- og þróunarverkefni með áherslu á álvinnslu.

Fimm hönnuðum er boðið í „workshop" í Svíþjóð 21.- 27. apríl 2012 nk. undir handleiðslu Dag Holmgren prófessor í iðnhönnun og Garðars Eyjólfssonar, master í „conceptual design".

Hönnuðir munu heimsækja ýmis iðnaðarfyrirtæki í Svíþjóð sem sérhæfa sig í álvinnslu. Einnig verða heimsótt framleiðslufyrirtæki sem vinna með textíl, við, stein, plast og fleira sem hægt er að nota með álinu. Lögð verður áhersla á að afla þekkingar á framleiðsluferlum (með sérstaka áherslu á ál) sem ekki eru þekkt hér á landi. Markmiðið er að flytja þekkingu til Íslands og koma á samstarfi og þekkingarmiðlun milli Norðurlandaþjóðanna.

Í framhaldinu vinna hönnuðir að hugmyndum sínum hér heima og gera í kjölfarið prótótýpur í samvinnu við valin sænsk framleiðslufyrirtæki.

Umsækjendur eru beðnir um að senda inn 3-5 vel valin verk og vinnuferla, ferilskrá og stutta lýsingu á því hvers vegna þeir hafi áhuga á verkefninu, max. 6, A4 síður á pdf. Umsóknir sendist á info@honnunarmidstod.is, merkt Samstarfsverkefni fyrir kl. 12.00 á miðnætti þann 19. mars 2012.

Fyrirspurnir skulu sendar á info@honnunarmidstod.is í síðasta lagi föstudaginn 9. mars.
Svör við fyrirspurnum eru að finna hér.


Verkefnisstjórarnir Dag Holmgren og Garðar Eyjólfsson ásamt fagnefnd sem í sitja Laufey Agnarsdóttir f.h. Arkitektafélagsins, Egill Egilsson f.h. Félags vöru- og iðnhönnuða og Íva Rut Viðarsdóttir f.h. Félags húsgagna- og innanhússarkitekta, auk fulltrúa frá Samtökum iðnaðarins munu velja úr umsóknum. Valið verður byggt á ferilskrá, reynslu, verkum, áhuga og tengslum við innihald verkefnisins. Þekking á framleiðsluferlum í iðnaði, hæfileikar til að lesa og snúa upp á og blanda saman verkferlum ásamt hæfileikum til þess að yfirfæra ferla á innihald verkefnisins, er það sem vegur þyngst í vali á umsækjendum.

Forsaga

Notkun á áli eykst um 100% á hverjum áratug. Verkefninu er ætlað að varpa ljósi á það hvernig samstarf aðila Á Norðurlöndum getur stuðlað að þróun á nýjum vörum og fyrirtækjum sem byggja á áli. Veita á íslenskum hönnuðum tækifæri til að starfa með iðnfyrirtækjum sem vinna úr áli og fyrirtækjum sem nota ál í framleiðslu sína, t.d. í húsgagnaiðnaði. Þannig má sjá hvernig mismunandi menning mætist, bæði menning þjóða og menning starfsgreina. Í Evrópu starfa um 255.000 manns í áliðnaði. Mikilvægur þáttur í verkefninu er að varpa ljósi á þær spurningar sem koma upp við samvinnu þjóða að nýsköpun. Markmiðið er samstarf á Norðurlöndum að nýsköpun í efnisnotkun og þróun hönnunar. Ísland er um þessar mundir einn helsti álframleiðandi í heimi. Áloxíð, bauxít, er grafið úr jörðu m.a. í Suður-Ameríku og flutt til Íslands af því að þar fæst ódýr orka. Úr þessu hráefni er unnið ál sem flutt er út til frekari þróunar og úrvinnslu í Evrópu. Ein spurningin er af hverju Íslendingar vinna ekki sjálfir úr áli til að auka sem mest verðmæti framleiðslunnar, áður en efnið er sent úr landi. Verkefnið hefur að markmiði að efla þekkingu og skilning á efninu áli, með áherslu á umhverfi, nýsköpun, hönnun og tæknimiðlun. Við ætlum okkur einnig að miðla þekkingu á tækni, iðnaði og iðnaðarframleiðslu milli norrænu landanna. Svíþjóð, Ísland og Noregur eru þátttakendur.

Framkvæmd

Workshop:
Verkefnstjórar hafa vilja til þess að fá valda þáttakendur til að vinna saman sem hóp sem geti haft mikil áhrif á hvaða fyrirtæki séu heimsótt og valin, ásamt því að geta haft mikil áhrif á innihald verkefnisins í sameiningu til að skapa heildstæða lokaniðurstöðu. Hópurinn hittist því snemma í apríl fyrir ferðina til Svíþjóðar til þess að ræða innihald, möguleika, val á fyrirtækjum og efnum.

Workshop verður haldið í Svíþjóð 21.-27. apríl þar sem farið verður í heimsóknir til valdra fyrirtækjum ásamt áframhaldandi þróun á innihaldi verkefnisins sem hópur. Ál er í aðalhlutverki í þessu verkefni í samblandi við önnur tengd efni í íslensku samhengi s.s. textíll, steinn, viður, leður o.s.frv. Í lok workshop viku munu hönnuðir kynna hugmyndir sínar og áframhaldandi þróun verkefna á ráðstefnu þar sem hagsmunaðilum verður boðin þátttaka ásamt fjölmiðlum.

Þróun hugmynda, prótótýpugerð:
í framhaldi af workshopi fara hönnuðir heim og vinna að áframhaldandi þróun á sínum verkum í samstarfi við sænsk framleiðsufyrirtæki með smíð á prótótýpu að markmiði. Þessi hluti verkefnisins verður nánar kynntur síðar.

Kynning á afrakstri:
Fyrirhugað er að sýna afrakstur verkefnisins sem eina heilsteypta heild á vel völdum sýningum víðsvegar um heiminn, fyrst á Norðurlöndunum og síðar í Evrópu og jafnvel Bandaríkjunum. Þessi hluti verkefnisins verður nánar kynntur síðar.


Verkefnið er samstarfsverkefni Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Samál, Samtaka iðnaðarins, Designregion Sweden, Möbelriket - Småland, Svenskt Aluminum og Sænska sendiráðsins á Íslandi.
















Yfirlit



eldri fréttir