Fréttir

20.2.2012

Veggspjaldasýning og bókaútgáfa | Taktabrot

 
 
 
 
 
Í tilefni útgáfu bókarinnar Taktabrot: Veggspjöld, flugumiðar og annað prentefni úr starfi Breakbeat.is 2000-2012 verður efnt til veggspjaldasýningar undir sama nafni í samstarfi við Artíma Gallerí, Smiðjustíg 10, dagana 24. febrúar til 4. mars.

Á sýningunni verður að finna brot af því besta úr veggspjaldasafni Breakbeat.is og hægt að sjá forsmekkinn af því sem koma skal í veggspjaldabókinni Taktabrot.

Sýningarstjórn er í höndum Karinu Hanney Marrero.

Sýningin opnar föstudaginn 24. febrúar kl 18:00, verða léttar veitingar í boði og taktabrotstónar frá plötusnúðum Breakbeat.is byggja upp stemninguna.

Þá verður hægt að styrkja útgáfu bókarinnar og tryggja sér um leið eintak af henni við útgáfu og miða í veglegt útgáfuhóf.




Breakbeat.is hópfjármagnar bókaútgáfu. Veggspjaldabókin Taktabrot væntanleg í mars.

Eftir 12 ára starf í viðburðarhaldi, útvarpsþáttastjórnun og vefsíðuumsjón hyggur Breakbeat.is nú á bókaútgáfu. Til þess að standa að útgáfu bókarinnar Taktabrot: Veggspjöld, flugumiðar og annað prentefni úr starfi Breakbeat.is 2000-2012 höfum við hrundið úr vör hópfjármögnun á vefsíðunni bok.breakbeat.is.

Hópfjármögnuninn stendur yfir allan febrúar mánuð og hefur farið vel af stað. Myndband til kynningar á verkefninu: http://vimeo.com/breakbeatdotis/taktabrot

Nánari upplýsingar er að finna hér að neðan en auk þess er velkomið að hafa samband við: Karl Tryggvason - kalli@breakbeat.is - 690 1456 Ragnar Frey Pálsson - r@ragnarfreyr.com - 868 7751

Nánar um bókina Taktabrot:
Bókin Taktabrot mun innihalda hátt í hundrað Breakbeat.is veggspjöld eftir um sextíu innlenda og erlenda hönnuði og listamenn. Öll þessi veggspjöld skreyttu á sínum tíma stræti borgarinnar og veggi verslana, skóla og veitingastaða. Þar auglýstu þau viðburði sem við í Breakbeat.is lögðum blóð, tár og svita í að koma í framkvæmd en höfðum jafnframt mjög gaman af. Þessi veggspjöld standa því eftir hjá okkur sem minning um liðnar en góðar stundir, við vonum að það eigi líka við um fleiri þarna úti.

En veggspjöldin eru líka flott, skemmtileg, nýstárleg, spennandi og áleitin. Þau hafa hlotið tilnefningar til verðlauna Félags Íslenskra Teiknara og Lúðursins, íslensku auglýsinga verðlaunanna og eftirprentanir þeirra hafa birst í ótal tímaritum og bókum, innanlands og utan. Af veggspjöldunum má lesa stóran þátt í sögu íslenskrar danstónlistar síðusta áratug. Við erum sannfærðir um að þessi bók verði ótrúlega flottur gripur sem muni vekja áhuga aðdáenda danstónlistar, áhugafólks um grafíska hönnun og myndlistar og smekksfólks almennt.

Útgáfu bókarinnar verður svo fagnað með veglegu útgáfupartýi laugardaginn 24. mars næstkomandi.

Nánar um hópfjármögnun:
Hópfjármögnun er þýðing á enska orðinu „crowdfunding“ en með því er átt við fjármögnun ýmis konar verkefna í gegnum veraldarvefinn. Í stað þess að leita til banka eða annarra fjársterkra aðila gengur hópfjármögnun út á að afla fjárs fyrir tiltekið verkefni í gegnum mörg smærri framlög. Oftast nær er fyrirkomulagið á þann hátt að hugmynd eða verkefni er kynnt til sögunnar og fólki boðið að taka þátt í fjármögnun verkefnisins gegn því að fá að njóta afrakstur þess á einhvern hátt þegar fjármögnun lýkur.

Í tilviki Breakbeat.is eru í boði þrír styrktarpakkar:
  • Þeir sem styrkja verkefnið um 1000 krónur eða meira fá nafn sitt á sérstaka styrktarsíðu í bókinni og á vefnum.
  • Þeir sem styrkja verkefnið um 3500 krónur eða meira fá eintak af bókinni þegar hún kemur út.
  • Þeir sem styrkja verkefnið um 5000 krónur eða meira fá miða í útgáfupartý bókarinnar 24. mars næstkomandi.

Nánar um Breakbeat.is:
Breakbeat.is heldur uppi merkjum breakbeat tónlistar og menningar á Íslandi og þá einkum drum & bass, jungle og dubstep tónlist.

Starfsemin undir merkjum Breakbeat.is er í raun þríþætt:
1. Vefsíðan – upplýsingaveita, fréttamiðill, samskiptaleið og netsamfélag
2. Vikulegur útvarpsþáttur á Xinu 97.7 3. Klúbbakvöld í Reykjavík og um landið allt, með íslenskum og erlendum plötusnúðum og tónlistarmönnum.

breakbeat.is

















Yfirlit



eldri fréttir