Opnað hefur verið fyrir skráningar í dagskrá HönnunarMars sem fram fer dagana 22. - 25. mars 2012.
Aðildarfélög Hönnunarmiðstöðvar vinna nú að dagskrá sinni og mörg þeirra standa fyrir samsýningu félagsmanna sinna. Undirbúningshópurinn hvetur hönnuði í fagfélögum Hönnunarmiðstöðvar, sem hyggjast taka þátt í dagskránni, til að setja sig í samband við
verkefnisstjóra viðkomandi félags. Aðrir þátttakendur geta skráð viðburð sinn skv. upplýsingum hér að neðan.
Frestur til að skrá viðburði rennur út miðvikudaginn 15. febrúar nk.
Skráning:
Þú hleður niður skráningareyðublaði sem þú finnur hér. Vistaðu því næst skjalið með nafni viðburðarins, fylltu úr skráningarblaðið, vistaðu og sendu á
verkefnisstjóra fagfélagsins þíns. Ef þú ert ekki meðlimur í einum af fagfélögum Hönnunarmiðstöðvar sendu þá skráninguna á
ritstjorn@honnunarmidstod.is.
Í skráningareyðublaðinu þurfa eftirfarandi atriði að koma fram: nafn viðburðar, staðsetning, opnunartími, tengiliður, fagfélag og texti um viðburð. Auk þess er mikilvægt að fylgi með stuttur hnitmiðaður texti sem segir frá viðburði í innan við 300 slögum.
Með skráningunni skulu fylgja myndir í prentupplausn sem eru lýsandi fyrir viðburðinn. Myndir eiga að vera merktar sama nafni og viðburðurinn. Góð mynd og vel unnin skráning eykur líkur á birtingu.
Athygli skal vakin á því að skráningar þeirra sem ekki eru í fagfélögum Hönnunarmiðstöðvar verða teknar sérstaklega fyrir í stjórn HönnunarMars, sem áskilur sér rétt til að hafna skráningunum uppfylli þær ekki kröfur um þátttöku.
HönnunarMars hefur stimplað sig rækilega inn, bæði meðal hönnuða en líka í borginni allri. Hann boðar vorkomuna og um leið gróskuna í íslenskri hönnun. Þar sem vel hefur tekist til verður haldið áfram á sömu braut en samhliða kynntar nýjungar í dagskrá.
Þverfagleg samvinna milli greina og út fyrir svið hönnunar verður í brennidepli á HönnunarMars í ár, þar sem leiðandi hönnuðir í heiminum í dag taka þátt í sérstakri dagskrá fyrir hönnuði, atvinnulíf og almenning.