16.1.2012
Málþing um höfundarétt
Með hverjum deilum við tekjum okkar?!
MÁLÞING UM HÖFUNDARÉTT
28.01.2012
Í Iðnó við Tjörnina
Laugardaginn 28. janúar nk. kl. 14:00 gengst BÍL fyrir málþingi um höfundarétt. Málþingið er haldið í tengslum við aðalfund BÍL, fer fram í Iðnó og er öllum opið. Þingið stendur til kl. 16:30 þá býður BÍL þátttakendum til móttöku.
Höfundaréttur er órjúfanlegur hluti af réttinda- og kjarabaráttu listamanna, sem aðildarfélög BÍL hafa stöðugt til skoðunar. Í ljósi þess að höfundaréttur er margslungið og flókið fyrirbæri, hættir umræðunni til að festast við skilgreiningu vandans sem við blasir; t.d. þykja lög um höfundarétt óskýr og erfitt að framfylgja þeim, talað er um nauðsyn aukinnar fræðslu um höfundarétt –jafnt til almennings sem listamannanna sjálfra, mikilvægt er talið að efla siðferðisvitund almennings og fyrirtækja m.t.t. réttinda höfunda o.s.frv. Allt er þetta satt og rétt, en þar sem það er vilji BÍL að málþingið verði STUTT og HNITMIÐAÐ hefur verið ákveðið að þrengja sjónarhornið og beina sjónum að einum þætti þessara margslungu réttindamála. Spurningin sem málþingið mun glíma við er þessi:
Hvernig má tryggja listamönnum sanngjarna hlutdeild í þeim arði sem notkun hugverka þeirra á netinu skapar?
Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, mun opna málþingið. Þá verður einn gestafyrirlesari Pia Raug söngvaskáld frá Danmörku sem jafnframt er formaður KODA systursamtaka STEFs. Hún mun greina frá hugmyndum alþjóðlegra höfundaréttarsamtaka og segja frá þeim úrræðum sem menn eru að gera tilraunir með til að tryggja að tekjur skili sér til rétthafa. Þá munu fjórir listamenn glíma við spurninguna hér að ofan; Guðmundur Andri Thorsson, Guðrún Erla Geirsdóttir (GErla), Ólöf Ingólfsdóttir og Sigtryggur Baldursson. Loks fara fram pallborðsumræður og verða þátttakendur í pallborðinu þau Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEFs, Jón Vilberg Guðjónsson skrifstofustjóri og sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Ragnar Th. Sigurðsson ljósmyndari og formaður stjórnar Myndstefs.
Málþinginu stýrir Kristín Atladóttir menningarhagfræðingur.