Fréttir

12.1.2012

Samkeppni | Veggspjald Listahátíðar í Reykjavík 2012




Listahátíð í Reykjavík, í samvinnu við Hönnunarmiðstöð, efnir til opinnar samkeppni meðal hönnuða og myndlistarmanna, um veggspjald Listahátíðar í Reykjavík 2012.


Lýsing á verkefninu

Verkefnið felur í sér að gera tillögu að veggspjaldi Listahátíðar í Reykjavík 2012 sem einnig er notað á forsíðu bæklinga, á vef og í öðru kynningarskyni fyrir Listahátíð sem haldin verður dagana 18. maí til 3. júní 2012. Gera þarf ráð fyrir merki (logo) Listahátíðar á veggspjaldinu (merkið má nálgast með því að smella hér). Þátttakendur hafa frjálsar hendur um útfærslu en hugmyndin er að hún veki tilfinningu fólks fyrir Listahátíð í Reykjavík, sem haldin er á vorin. Hlutverk hátíðarinnar er að skipuleggja og standa að árlegum Listahátíðum í Reykjavík á sviði tónlistar, leik- og danslistar, bókmennta, myndlistar og hönnunar. Listahátíð hefur metnaðarfulla listsköpun að leiðarljósi og kappkostar að tefla fram framúrskarandi listafólki af hinu alþjóðlega sviði ásamt því besta sem býr í listmenningu þjóðarinnar. Sjá nánari upplýsingar á www.listahatid.is

Opin samkeppni um hönnun veggspjalds er nýbreytni hjá Listahátíð, en í yfir fjörutíu ára sögu hennar hefur fjöldi hönnuða og myndlistarmanna verið valinn til að hanna veggspjöld sem fangað hafa tíðarandann og sett svip sinn á borgina á vorin. Hafa þau verið með ýmsu móti og ýmist tengst viðburðum, listamönnum og verkum Listahátíðar eða verið sjálfstæð hönnun. Á veggspjaldi Listahátíðar er ætíð merki (logo) hátíðarinnar sem hannað var af Ágústu Snædal árið 1969. Ágústa var fyrsti menntaði auglýsingateiknarinn hér á landi og sigraði samkeppni um merkið sem efnt var til við stofnun Listahátíðar. Merkið hefur aðeins tekið minniháttar breytingum frá upphafi og minnir á blóm eða stjörnu, en innblástur Ágústu að forminu var fjallahringurinn í kringum Reykjavík og fíngert blóm arfans.

Fyrir hverja

Samkeppnin er opin hönnuðum og myndlistarmönnum.

Vegleg verðlaun

Verðlaunahafi hlýtur verðlaun að upphæð 500.000 kr. Auk þess verður gerður samningur við vinningshafa um útfærslu hugmyndarinnar.

Umsóknarferli

Tillögum skal skila í lokuðu umslagi merktu Listahátíð í Reykjavík 2012 í Hönnunarmiðstöð Íslands, Vonarstræti 4b, 101 Reykjavík, fyrir kl. 16.00 fimmtudaginn 23. febrúar 2012. Í umslaginu skal vera annað lokað umslag merkt dulnefni en inni í því þarf rétt nafn höfundar, netfang, heimilisfang og símanúmer að koma fram. Tillögum skal skila útprentuðum á A4 blaði í lit (hámark 3 stakar síður). Tillögur skulu einnig fylgja með á diski með pdf. skjölum. Farið verður með allar tillögur sem trúnaðarmál.

Úrslit samkeppninnar verða tilkynnt 20. mars 2012. Sýning á völdum tillögum fer fram á sama tíma.

Dómnefnd

  • Guðmundur Oddur Magnússon, grafískur hönnuður og prófessor við Listaháskóla Íslands
  • Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands
  • Halldóra Ísleifsdóttir, grafískur hönnuður og fagstjóri grafískrar hönnunar við Listaháskóla Íslands
  • Hrefna Haraldsdóttir, stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík
  • Stefán Snær Grétarsson, grafískur hönnuður og teiknistofustjóri Fíton

Dómnefndin áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum.

Keppnisritari

Ritari keppninnar er Haukur Már Hauksson. Fyrirspurnir þurfa að berast fyrir 13. janúar 2012 á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is Öllum spurningum verður svarað og svörin birt á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar www.honnunarmidstod.is þann 18. janúar 2012.

Fyrirspurnir sem bárust og svör vð þeim er að finna hér.

Opin samkeppni um hönnun veggspjalds er nýbreytni hjá Listahátíð, en í yfir fjörutíu ára sögu hennar hefur fjöldi hönnuða og myndlistarmanna verið valin til að hanna veggspjöld sem fangað hafa tíðarandann og sett svip sinn á borgina á vorin. Hafa þau verið með ýmsu móti og ýmist tengst viðburðum, listamönnum og verkum Listahátíðar eða verið sjálfstæð hönnun. Á veggspjaldi Listahátíðar er ætíð merki (logo) hátíðarinnar sem hannað var af Ágústu Snædal árið 1969. Ágústa var fyrsti menntaði auglýsingateiknarinn hér á landi og sigraði samkeppni um merkið sem efnt var til við stofnun Listahátíðar. Merkið hefur aðeins tekið minniháttar breytingum frá upphafi og minnir á blóm eða stjörnu, en innblástur Ágústu að forminu var fjallahringurinn í kringum Reykjavík og fíngert blóm arfans.

















Yfirlit



eldri fréttir