Fréttir

6.1.2012

Heildstætt meistaranám við Listaháskóla Íslands

Fréttatilkynning frá Listaháskóla Íslands

Hafin er vinna við undirbúning meistaranáms í myndlist og hönnun við Listaháskóla Íslands. Stjórn Listaháskólans hefur ákveðið að undirbúa stofnun meistaranáms í myndlist og hönnun næsta haust. Ákvörðunin byggir á samþykkt Alþingis á 20 milljón króna framlagi til námsins á fjárlögum 2012. Nú þegar eru starfræktar tvær námsbrautir á meistarastigi í tónlist og nám í listkennsludeild er allt á meistarastigi. Með stofnun námsbrautanna í myndlist og hönnun og fyrirhuguðum breytingum á skipulagi náms á leikarabraut getur Listaháskólinn boðið upp á heildstætt meistaranám í þeim helstu greinum sem skólinn starfrækir.

Nám á nýju námsbrautunum er skipulagt sem tveggja ára samfellt nám til MA gráðu á 2. þrepi, stigi 4, samkvæmt viðmiðum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um æðri menntun og prófgráður. Gert er ráð fyrir átta nemendum í árgangi á myndlistarbraut og tólf nemendum í árgangi á hönnunarbraut. Námið verður auglýst til umsóknar síðar í vetur eða snemma í vor.

Að sögn rektors er hér um afar mikilvægan áfanga að ræða, en stofnun meistaranámsins hefur verið eitt helsta baráttumál skólans síðustu árin. Tillögur liggja fyrir um rekstur alls átta námsbrauta á þremur sviðum, þ.e. meistaranám í listum og hönnun (þ.m.t. meistaranám í tónsmíðum, myndlist og hönnun), meistaranám í listkennslu og miðlun (þ.m.t. nám til M.Art.Ed og MA gráðu í listkennslu, og samevrópskt meistaranám í Sköpun, miðlun, og frumkvöðlastarfi til M.Mus gráðu), svo og þverfaglegt meistaranám fyrir fólk með blandaðan bakgrunn úr listum, fræðum, vísindum og atvinnulífi (s.k. Deigla). Með stofnun nýju námsbrautanna næsta haust verður byggt á mikilvægri reynslu skólans af rekstri námsbrauta á meistarastigi í tónlist og listkennslu, sem þá falla inn í þá stærri heild sem skapast með nýju brautunum.

Helstu rökin fyrir stofnun meistarnámsins eru eftirfarandi:
  • nám á meistarastigi er undirstaða atvinnumennsku í lista- og menningarlífi þjóðarinnar;
  • nemendur í listum og skapandi greinum eiga ekki síður rétt á framhaldsnámi en nemendur á öðrum fræðasviðum;
  • með meistaranámi skapast forsendur fyrir þróun rannsókna í listum, hönnun, og öðrum skapandi greinum;
  • með meistaranámi verður til grunnur þekkingar og reynslu sem er nauðsynlegur til nýsköpunar og þróunar í listsköpun og hugverkagerð;
  • með meistaranámi skapast nýjar forsendur fyrir öflugri samvinnu Listaháskólans við fyrirtæki, stofnanir og bæjarfélög vítt um landið;
  • með meistaranámi skapast þverfaglegur vettvangur fyrir samstarf listafólks og kennara sem starfa í landinu;
  • með heildstæðu meistaranámi í öllum helstu listgreinum getur Listaháskólinn starfað á jafnréttisgrundvelli gagnvart öðrum háskólum í landinu;
  • þátttaka Listaháskólans í norrænu og alþjóðlegu samstarfi er háð því að skólinn starfi á meistarastigi í helstu greinum;
  • þróun lista og samkeppnishæfi þeirra á alþjóðlegum vettvangi er háð því að rannsóknir í skapandi greinum verði efldar og komið upp framhaldsnámi í helstu greinum;
  • Listaháskólinn þjálfar fólk til starfa í skapandi greinum og hann skapar umgjörðina og aðstöðuna sem þarf til framþróunar í greinunum sem heild;
  • Listaháskólinn er kjarnaskóli skapandi greina.

Nánari upplýsingar veitir:
Lilja Gunnarsdóttir, kynningarstjóri Listaháskóla Íslands í síma 694 2076.
















Yfirlit



eldri fréttir