Sameinuðu þjóðirnar í Brussel og Norræna ráðherranefndin hafa ýtt úr vör evrópskri auglýsingasamkeppni undir fyrirsögninni „Framtíðin sem við viljum – Dropi fyrir dropa“ sem nær til vatns, græna hagkerfisins og Rio+20.
Samkeppnin er haldin um alla Evrópu og er liður í alþjóðlegri herferð Sameinuðu þjóðanna sem nefndist The Future We Want í aðdraganda Rio+20: Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldin verður 20.-22. júní 2012.
Norræna ráðherranefndin veitir fyrstu verðlaun, Verðlaun Norrænu ráðherranefndarinnar og 5.000 evrur.
Með samkepppninni er vonast til að einstaklingar og fyrirtæki í 48 Evrópuríkjum hanni blaðaauglýsingar sem vekji fólk til vitundar og hvetji það til að finna grænar lausnir á stjórnun og varðveislu vatnsauðlinda, nú og fyrir kynslóðir framtíðarinnar.
-Áður en við ákváðum að taka þátt í herferð Sameinuðu þjóðanna í aðdraganda Rio+20 "The Future We Want", skoðuðum við ólík málefni og komumst að raun um hversu mikið við sóum af vatni Evrópu, væri það málefni sem líklega snerti alla. Og ef hönnuðir leggjast á eitt mun það hafa mun meiri áhrif, segir Afsané Bassir-Pour, framkvæmdastjóri UNRIC.
-Við erum afar ánægð með að Norðurlöndin séu samstarfsaðilar að þessu verkefni, segir Afsané Bassir-Pour. Hvernig geta íbúar á svæði sem nær yfir Grænlandsjökul, norðurhöf og Eystrasaltið að ógleymdum þúsundum vatna Finnlands látið hjá líða að hugsa um vatn? Ríkin fimm hafa gegnt mikilvægu hlutverki þegar kemur að grænum lausnum og sjálfbærri þróun frá Brundtland-nefndinni til dagsins í dag segir Bassir-Pour.
-Norðurlönd hafa bolmagn og pólitískan vilja til þess að vera í fararbroddi í sjálfbærum lausnum og grænum hagvexti. Marmiðið með þessari samkeppni er að hvetja og stuðla að þátttöku allra Evrópubúa í baráttunni fyrir betri og vistvænni framtíð, segir Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherraefndarinnar.
Herferðin “The Future We Want – Drop by Drop” er skipulögð af UNRIC í samstarfi við skrifstofu UNEP í Brussel.
Achim Steiner, framkvæmdastjóri UNEP, bendir á að með því að fjárfesta aðeins 0,16 prósent af vergri þjóðarframleiðslu í vatnsverndun megi koma í veg fyrir vatnsskort og á skömmum tíma fækka um helming þeim heimsbúum sem ekki hafa aðgang að hreinu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu.
-Með því að tryggja stuðning almennings í gegnum Drop by Drop auglýsingaherferðina er hægt að stuðla að breyttum hugsunarhætti og styðja GreenUp! verkefni UNEP í aðdraganda Rio+20, segir Dr. Steiner.
Séguela og Hedegaard í dómnefnd.
Tveimur tillögum, auk fyrstu verðlauna verður veitt viðurkenning, annari í flokki ungmenna og hinni fyrir flest atkvæði almennings. Verðlaunahafinn verður valinn af dómnefnd auglýsingafólks og alþjóðlegra sérfræðinga:
- Jacques Séguéla, varaformaður stjórnar Havas,
- Catarina de Albuquerque, sérstakur álitsgjafi um rétt fólks til aðgangs að öruggu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu,
- Connie Hedegaard, sem fer með málefni loftslagsaðgerða í framkvæmdastjórn ESB,
- Omar Vulpinari, yfirmaður sjónrænnar miðlunar hjá Fabrica
- John Vidal; umhverfisritstjóra dagblaðsins the Guardian
- Jens Assur; ljósmyndari frá Svíþjóð
- Ferah Perker; grafískur hönnuður frá Tyrklandi.
Byrjað verður að taka við tillögum þann 10. desember 2011, á alþjóða mannréttindadeginum,
og rennur frestur út á miðnætti 29. febrúar 2012. Tilkynnt verður um þann sem hlýtur flest atkvæði almennings 22. mars 2012, á alþjóðadegi ferskvatnsins; um verðlaunahafa í flokki ungmenna 11. apríl 2012, og aðalverðlaunahafann 5. júní, á alþjóðadegi umhverfisins.
Nánari upplýsingar á vefsíðu samkeppninnar
UNRIC, upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu sér um upplýsingagjöf til 22 Evrópuríkja.
UNEP er umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna. Skrifstofa UNEP í Brussel er meðskipuleggjandi samkeppninnar.
Sameinuðu þjóðirnar gangast nú fyrir þriðju evrópsku auglýsingasamkeppni
sinni. Í fyrstu keppninni voru þrjá íslenskar auglýsingar á meðal
þrjátíu efstu og Stefán Einarsson hjá Hvíta húsinu stóð uppi sem
sigurvegari og fékk ekki aðeins vegleg peningaverðlaun heldur einnig
alþjóðlega kontakta og áhugaverð verkefni. Í síðustu keppni komust tveir
Íslendingar í hóp þrjátíu efstu en danskur hönnuður sigraði.
Ástæða er til að vekja athygli á að alþjóðlegu samtökin ICOGRADA hafa farið yfir og samþykkt reglur keppninnar.