Fréttir

10.12.2011

Vinnustofa Atla Hilmarssonar verðlaunuð

 
 
 
 
Vinnustofa Atla Hilmarssonar (VAH) vann nýlega til tvennra verðlauna Alþjóðasamtaka upplýsingahönnunar (IIID) sem veitt voru á ráðstefnu samtakanna á Taiwan.

Þessi verðlaun eru gríðarleg viðurkenning og fela m.a. í sér að umrædd verk hljóta kynningu og dreifingu um víða veröld. Verðlaunin eru veitt á 3ja ára fresti.

Íslensku verkefnin sem voru verðlaunuð voru:
Leiðarmerkingar í Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi í Reykjavík.
Upplýsingakerfi og skilti á svæði og í byggingum Háskóla Íslands.

VAH hlaut verðlaunin í flokki sem á fagmáli kallast „Wayshowing“, sem á íslensku gæti útlagst sem vegvísar, en markmið þess í grafískri hönnun er að auðvelda almenningi að átta sig á umhverfi sínu með einföldum og skilmerkilegum hætti.

Alþjóðasamtök upplýsingahönnunar (IIID) hafa bækistöðvar sínar í Vín í Austurríki. Markmið samtakanna er að auka gæði þeirra upplýsinga sem miðlað er til almennings í umhvefinu. Þannig á að auðvelda almenningi að fá réttar upplýsingar á réttum tíma á sem skilvirkastan hátt.

Sérstök áhersla er lögð á möguleika grafískrar hönnunar á að miðla upplýsingum þvert á allar félagslegar og tungumálahindranir.

Meðlimir í IIID eru háskólar og listaskólar, grafískir hönnuðir, hönnunarstofur og aðrir aðilar sem vinna að því að miðla upplýsingum í samfélaginu.

Vinnustofa Atla Hilmarssonar var stofnuð árið 2003. Stofnandi stofunnar, Atli Hilmarsson, lauk BA-námi frá Parsons, New York og MA-námi frá Kunstgewerbeschüle (Basel School of Design), Basel. Eftir námið vann hann í nokkur ár í Þýskalandi m.a. hjá Meta Design og KMS. Atli hefur verið stundakennari á Íslandi, í Þýskalandi og Austurríki frá árinu 1995. Hann hefur unnið sem hönnuður fyrir mörg heimsþekkt fyrirtæki og vörumerki.

Hörður Lárusson útskrifaðist frá LHI vorið 2006 með BA-gráðu í grafískri hönnun. Hann hefur unnið á Vinnustofu Atla Hilmarssonar frá 2005. Hörður hefur verið stundarkennari við LHI síðan 2007 og sama ár var hann kjörinn formaður FÍT. Hann á einnig sæti í stjórn Art Directors Club of Europe. Hörður hefur gefið út tvær bækur um íslenska fánann, fyrst bókina Fáninn (2008) sem sýnir í fyrsta sinn tillögur almennings að hönnun íslenska fánans og síðan Þjóðfáni Íslands (2011), Notkun, virðing og umgengni.

Hönnuðir VAH hafa unnið að fjölmörgum verkefnum á síðustu árum sem vakið hafa verðskuldaða athygli. Má þar m.a. nefna hönnun merkja Veðurstofu Íslands, Faxaflóahöfnum, Háskólans á Akureyri, Hafnarborgar o.m.fl. Á meðal annarra verkefna má nefna hönnun bóka á borð við Icelandic Art Today, Ný náttúra og Vatnsmýri 102 Reykjavík. Þá hannaði VAH allt útlit landnámssýningarinnar 871 +-2 sem opnuð var í Aðalstræti fyrir fjórum árum.

VAH hlaut menningarverðlaun DV árið 2008 auk þess sem hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna í Lúðrinum (Íslensku Markaðsverðlaunin) og hönnunarkeppni FÍT.
















Yfirlit



eldri fréttir