Félagsmönnum Myndstefs er nú boðið að sækja um Gestavinnustofur SÍM í Berlín.
SÍM hefur frá árinu 2002 starfrækt gestavinnustofur fyrir erlenda myndlistarmenn í Reykjavík. Gestavinnustofur eru í dag ein af undirstöðum tengslamyndunar í alþjóðlegri samtímamyndlist. Það er ekki nóg að listamenn fái dvalið í vinnustofum víða um heim, heldur hefur það gríðarlega mikið að segja að listamenn myndi tengsl sín á milli og fái einnig tækifæri til að kynna sér myndlist og listamenn í viðkomandi landi, því oftar en ekki leiða þau sambönd til nýrra verkefna og áframhaldandi samstarfs. Miklu skiptir að íslenskir myndlistarmenn séu fullgildir þáttakendur í því starfi og fái sömu tækifæri erlendis og við höfum boðið gestum okkar hér á Íslandi.
SÍM hóf rekstur á gestavinnustofum fyrir félagsmenn sína í Berlín í október 2010. Íslenskum listamönnum gefst þar tækifæri til að dvelja í einni af háborgum menningarinnar, sækja sér innblástur í síbreytilegt og líflegt menningarlíf, ásamt því að geta unnið að list sinni. Gestavinnustofurnar eru hugsaðar til dvalar frá einni viku upp í þrjá mánuði í senn.
Berlín er borg mikilla andstæða. Í byrjun tuttugustu aldar laðaði Berlín til sín ungt fólk sem heillaðist af menningarlífi borgarinnar. Borgin hefur verið vettvangur frjálslyndis, miðstöð djasstónlistar, lista og skemmtunar. Berlín gengur sífellt í endurnýjun lífdaga og er þekkt fyrir líflegt tónlistarlíf, söfn og frábæra matargerð.
SÍM Residency Berlín er til húsa í Neue Bahnhofstrasse 27, í Friedrichshain, um 5 mínútna fjarlægð frá Ostkreuz lestarstöðinni.
Verðlag á mat og drykk er almennt hagstæðara í þessum hluta Berlínar. Í nágrenninu er fjöldi veitinga- og kaffihúsa.
Íbúðin er á 4. hæð og samanstendur af tveimur 23 m2 herbergjum, eldhúsi, wc og baði. Bæði herbergin eru með sérinngangi og deila aðgangi að eldhús, wc og baðherbergi.
Leiguverð fyrir herbergið í 1 mánuð er 450€
Leiguverð fyrir herbergið í 1 viku er 250€
Þessi herbergi eru einungis leigð út í viku í senn yfir sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst.
Nánari upplýsingar er að finna á slóðinni:
http://sim.is/sim-res-berlin/