Spark Design Space
|
Sruli Recht
|
Sruli Recht
|
Hönnunarsjóður Auroru heldur áfram starfsemi sinni eftir
þriggja ára velheppnað tilraunatímabil.
Hönnunarsjóðurinn úthlutaði 6.000.000 kr. til hönnuða og verkefna þeirra
fimmtudaginn 17. nóvember 2011
Hönnunarsjóður Auroru úthlutar 6.000.000 króna til framúrskarandi verkefna. Alls hefur verið úthlutað úr sjóðnum rúmlega 17.500.000 króna á þessu ári.
Hönnunarsjóður Auroru stendur á tímamótum, nú þegar þriggja ára tilraunatímabili hans lýkur í lok þessa árs en stofnandi sjóðsins, Aurora Velgerðarsjóður hefur ákveðið að veita sjóðnum brautargengi í önnur þrjú ár. “Það er gífurlega mikilvægt fyrir hönnuði að Hönnunarsjóður Auroru haldi áfram starfsemi sinni, enda er hann eini sjóðurinn á Íslandi sem starfar á forsendum greinarinnar. Fjárþörfin í greininni er mikil og nauðsynlegt að efla stuðningsumhverfið enn frekar". segir Hlín Helga Guðlaugsdóttir framkvæmdastjóri sjóðsins.
Að þessu sinni fá tveir aðilar framhaldsstyrki til frekari eflingar verkefna sinna, sem er í takt við þá stefnu Hönnunarsjóðsins að fylgja eftir völdum verkefnum þannig að sá árangur megi fremur nást sem viðkomandi stefnir að. Styrkina hljóta
SPARK hönnunargallerí og
Sruli Recht fatahönnuður. Bæði þessi verkefni eiga það sameiginlegt að ötullega hefur verið unnið í þeim frá fyrri styrkveitingum.
Hönnunarsjóðurinn styrkir í fyrsta skipti
Sóleyju Stefánsdóttur með verkefni sitt
DIG-Equality (Design Innovation for Gender Equality), sem byggir á þeirri hugsjón að hönnun sé afl til samfélagslegra breytinga.
Hönnunarsjóður Auroru hefur styrkt átta hönnuði til starfsnáms (internship) síðustu ár. Í þetta sinn hlýtur slíkan styrk
Steinar Júlíusson, grafískur hönnuður til starfsnáms hjá Acne Productions í Stokkhólmi.
Hönnunarsjóðurinn heldur áfram samstarfi við skipuleggjendur hönnunarviðburða og tók á dögunum þátt í Atypi, alþjóðlegri ráðstefnu um leturhönnun sem haldin var í Hörpu á dögunum. Sjóðurinn er einnig í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands um bloggsíðu til kynningar íslenskri hönnun erlendis.
Um er að ræða aðra úthlutun úr sjóðnum á þessu ári, en þá sjöundu frá því Hönnunarsjóðurinn hóf starfsemi sína í byrjun árs 2009.
www.honnunarsjodur.is