Fréttir

12.11.2011

Ný hönnunar- og markaðsbraut

 
 
 
 
Ný Hönnunar- og markaðsbraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ – eftirsótt nýjung

Í ágúst árið 2008 voru ný framhaldsskólalög samþykkt og ljóst að með þessum nýju lögum væri einnig verið að kalla eftir nýjum áherslum í námsframboði framhaldsskólanna. Hvatt var til þverfaglegrar samvinnu og meiri nálgunar við áframhaldandi nám og atvinnulíf.

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ hefur til margra ára boðið upp á nám í fata- og textílhönnun og viðskipta- og markaðsfræði og skapað sér jákvæða ímynd, viðurkenningu og mikilvæga reynslu á fyrrnefndum sviðum. Mikill áhugi nemenda í hönnunarnámi skólans fyrir frumkvöðla- og markaðsfræði ýtti einnig undir þá leið að sameina þessi tvö áhugasvið, hönnunar- og markaðsfræði með því að nálgast á nýjan hátt þær greinar sem þegar voru til staðar í námsframboði skólans.

Hugmyndum Ásdísar Jóelsdóttur fata- og textílhönnunarkennara og Tinnu Ösp Arnardóttur viðskiptafræðikennara um nýja og metnaðarfulla Hönnunar- og markaðsbraut var því mjög vel tekið og undanfarin tvö ár hafa þær unnið að þróun og mótun brautarinnar sem lýkur með stúdentsprófi.

Með Hönnunar- og markaðsbrautinni er skólinn einnig að koma til móts við auknar kröfur um samvinnu hönnunar og viðskipta á sviði menntunar og í atvinnulífinu, þ.e. mikilvægi nýsköpunar og fjármála- og markaðslæsis við þróun atvinnulífsins. Mikil tenging er milli þess að skapa og stunda hönnun og að koma hugmynd að vöru eða tilbúinni afurð á framfæri og því mikilvægt að nemendur viti hvernig hönnun og markaðsgreinar tengjast atvinnusköpun og samfélagsþróun. Þess vegna er áhersla lögð á góða tengingu við atvinnulífið og framhaldsnám í hönnunargreinum, m.a. með vinnustaðaheimsóknum, vettvangsferðum, gestafyrirlesurum, starfskynningum o.fl. Einnig í tengslum við raunhæf verkefni, sýningar, samkeppnir, ráðgjöf og tilrauna- og þróunarvinnu. Markmiðið með Hönnunar- og markaðsbrautinni er þannig að undirbúa nemendur fyrir nám og störf við hinar fjölbreyttu atvinnugreinar hönnunar. Fjölbreytni námsins er mikil og lögð er áhersla á þverfaglegt nám þar sem nýsköpun, hönnun og markaðsleg færni ná saman. Annars vegar með verklegri þjálfun hvað varðar þátt nýsköpunar í hönnun og hins vegar bóklegri þjálfun hvað varðar lögmál markaðarins. Lögð er áhersla á að nemendur búi yfir frumkvæði, skapandi hugsun og sjálfstæði í vinnubrögðum og geti miðlað hugmyndum og útskýrt vinnuferli og breytt hugmynd í afurð. Afurð getur verið ýmiss konar vörur, þjónusta, afþreying, þekking o.fl.

Kennsla á brautinni hófst nú í haust og er mikill áhugi fyrir Hönnunar- og markaðsbrautinni meðal nemenda, samkennara og stjórnenda skólans auk skólasamfélagsins í heild. Hvarvetna er þessari nýju og áhugaverðu nálgun vel tekið og mikill velvilji og góð samvinna er við fyrirtæki og stofnanir.

Einnig má sjá nánari upplýsingar á heimasíðu skólans www.fg.is
















Yfirlit



eldri fréttir