Fréttir

1.11.2011

Arkitektafélag Íslands 75 ára

 
Arkitektafélag Íslands mun halda uppá 75 ára afmæli sitt laugardaginn 5. nóvember í Gyllta salnum á Hótel Borg. Í tilefni af því verður fagnað með glæsilegu málþingi og árshátíð um kvöldið.

Dagskráin hefst kl. 14:00 með málþingi á Hótel Borg sem stendur til 18:30. Aðgangur á málþingið er frír og öllum opinn á meðan pláss leyfir.

Á málþinginu verður sjónum beint að fjölbreyttum viðhorfum við mótun verka og margbreytilegri sýn á fagið. Þar munu fulltrúar breiðs kynslóðabils íslenskra arkitekta, varpa fram hugleiðingum sínum um verkin og starfið auk þess sem Haraldur Helgason arkitekt FAÍ mun stikla á stóru úr sögu Arkitektafélagsins.

Málþing – 14:00 – 18:15

Fundarstjóri, Hallmar Sigurðsson framkvæmdastjóri AÍ
14:00 Málþing sett, Formaður AÍ; Logi Már Einarsson arkitekt FAÍ
14:10 Ávarp ráðherra
14:20 David Lewis; LTL Architects (New York) – Opportunistic architecture
15:10 Jenny Osuldsen, Snøhetta (Oslo) – Snøhetta Works
15:55 Spurningar til LTL og Snøhetta úr sal

16:10 Kaffihlé, veitingar í boði félagsins.

16:40 Hugleiðingar kynslóða:
  • Þorvaldur S Þorvaldsson arkitekt FAÍ
  • Steinunn Eik Egilsdóttir BA í arkitektúr
  • Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt FAÍ – Hús og skipulag
  • Gunnar Sigurðsson arkitekt FAÍ – Tvíhorf
  • Anna Sigríður Jóhannsdóttir arkitekt FAÍ – VA Arkitektar
  • Kristján Örn Kjartansson arkitekt FAÍ – Krads Arkitektar

17:30 Stiklað á stóru í Sögu AÍ; Haraldur Helgason arkitekt FAÍ
17:50 Samtal kynslóða – spurningar úr sal
18:15 Málþingi slitið

Árshátið Arkitektafélags Íslands 5. nóvember 2011 í Gyllta salnum, Hótel Borg hefst kl. 20:00. Nánari upplýsingar og skráning er að finna á vef AÍ www.ai.is

   

Erindi erlendra gesta á málþinginu:

David J. Lewis einn eigenda LTL architects í New York mun flytja erindið „Opportunistic architecture” þar sem hann fjallar um eigin verk, spurningar sem stéttin stendur frammi fyrir í dag og hlutverk menntunar fyrir framtíðina.

David útskrifaðist úr Princeton með meistaragráðu í arkitektúr, úr Cornell með meistaragráðu í arkitektúr og borgarfræðum og frá Carleton College með bakkalár gráðu í listum. Hann hefur kennt arkitektúr við Parsons í New York, þar sem hann hefur jafnframt stýrt Hönnunarvinnustofu meistaranema og nú keppnisliði skólans í umhverfisvænni húsagerð (solar decathlon). David hefur einnig kennt við Cornell, University of Pennsylvania, University of Limerick og Ohio State University auk þess að vera eftirsóttur gestafyrirlesari.

Stofan LTL architects var stofnuð 1997 af Paul Lewis, Marc Tsurumaki og David Lewis. Þar er unnið að verkefnum á breiðum skala, allt frá stærri mennta- og menningartengdum byggingum til veitinga- og gististaða , innanhússhönnunar, innsetninga og sýningarhönnunar og spekúlatífra rannsóknarverkefna. Markmið þeirra er að vinna á skapandi hátt með ramma hvers verkefnis og breyta honum í drifkraftinn á bak við hönnunina sjálfa og rannsaka þannig tækifæri sem myndast við skörun rýma, prógrams, forma, fjármagns og efnisvals. Rising currents Fluff bakery Arthouse at the Jones center LTL architects hafa unnið til fjölmargra verðlauna og verið heiðraðir, m.a. á sviði arkitektúrs, innanhússarkitektúrs, lýsingarhönnunar og hugmyndaverkefna. Gefnar hafa verið út þrjár bækur um verk þeirra auk fjölda birtinga í bókum, prentmiðlum og vefmiðlum. LTL tóku þátt í nýafstaðinni sýningu undir heitinu “Rising Currents” á MoMA listasafninu í New York þar sem valdar stofur voru fengnar til að vinna hugmyndaverkefni á stórum skala sem snéri að borgarskipulagi og hækkandi yfirborði sjávar. Nánari upplýsingar má finna á www.ltlwork.net

Frá hinni hlið hafsins kemur Jenny B. Osuldsen einn eigenda Snøhetta frá Oslo. Hún mun flytja erindið „Snøhetta Works” þar sem hún fjallar um verk Snøhetta í alþjóðlegu samhengi.

Jenny laggði stund á meistara nám í landslagsarkitektúr við CalPoly Pomona í Los Angeles og hefur jafnframt meistarapróf í landslagsarkitektúr frá NLH – Ås. Hún gekk til liðs við Snøhetta 1995 og er nú einn sex meðeigenda. Jenny hefur kennt við Arkitektaskólan í Bergen og verið prófdómari í fleiri skólum. Auk þess hefur hún flutt fyrirlestra víðsvegar um heiminn við margskonar tækifæri. Hún hefur verið virk í Félagi Landslagsarkitekta í Noregi og var þar varaformaður frá 1995-7.

Snøhetta var stofnuð 1989 í Oslo en rekur nú hluta stofunnar í New York eftir að hafa unnið samkeppni í tenglsum við minnisvarða fyrir 11. september 2001. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á samruna landslagsarkitektúrs og arkitektúrs við úrlausnir verkefna. Hjá Snøhetta starfa arkitektar, landslagsarkitektar, innanhúsarkitektar- og húsgagnaarkitektar náið saman. Þannig þróast verklag sem gerir þeim kleift að draga fram í dagsljósið atriði í hönnun sem ella hefðu ekki borið á góma. www.snoarc.no


















Yfirlit



eldri fréttir