Fréttir

30.10.2011

Leiðbeiningarit um uppbyggingu ferðamannastaða

Á ferðamálaþingi í október 2011 var meðal annars kynnt rit sem þá var í lokavinnslu og nefnist „Góðir staðir“ og er leiðbeiningarrit um uppbyggingu ferðamannastaða. Ritið er unnið í samstarfi Ferðamálastofu, Framkvæmdasýslu ríkisins og Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Ritinu er ætlað að hjálpa ferðaþjónustuaðilum, forsvarsmönnum sveitarfélaga, félagasamtökum og öðrum framkvæmdaaðilum við skipulag og uppbyggingu áfangastaða ferðamanna. Áhersla er lögð á mikilvægi góðs undirbúnings og vandvirkni. Því er þannig ætlað að byggja brú á milli sveitarfélaga og ríkis annarsvegar og hönnuða og framkvæmdaaðila hinsvegar. Ritinu er einnig ætlað að vera hvatning til þeirra fjölmörgu aðila sem standa að uppbyggingu ferðamannastaða á Íslandi öllu að vanda til verka því enginn vafi leikur ´að náttúran og landið okkar eiga það skilið.

Í inngangi að ritinu segir meðal annars : „Náttúruperlur landsins eru ómetanlegur hluti af þjóðararfleifð okkar. Við uppbyggingu ferðamannastaða þarf að hafa í huga að vandað verk samanstendur af þremur órjúfanlegum þáttum undirbúningi, hönnun og framkvæmd. Ávallt skal leggja áherslu á gæði, fagmennsku og vandvirkni og hafa skal í huga að ábyrg ferðaþjónusta stuðlar að verndun menningar og náttúrulegs umhverfis. Að baki vel heppnaðar framkvæmda er vönduð hönnun og góður undirbúningur.

Starfshópur við gerð ritsins skipuðu: Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt FAÍ, sem jafnframt er ritstjóri; Halldóra Vífilsdóttir arkitekt FAÍ, verkefnisstjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins; Kristín Gunnarsdótti, verkefnisstjóri hjá Hönnunarmiðstöð Íslands og Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisstjóri, Ferðamálastofu.

Vert er að benda á að ritið er enn í vinnslu og hægt að koma á framfæri ábendingum um efni þess til ritstjóra á netfangið sturludottir@gmail.com

Tengill á ritið er hér að neðan.  „Góðir staðir“ - leiðbeiningarrit um uppbyggingu ferðamannastaða (PDF)

www.ferdamalastofa.is
















Yfirlit



eldri fréttir