Nýverið var haldið Ferðamálaþing á Ísafirði undir yfirskriftinni „Upplifðu - Samspil ferðaþjónustu og skapandi greina". Það var samdóma álit þátttakenda að þingið í heild hafi tekist mjög vel og að erindi á þingi hafi verið fagleg og til fyrirmyndar. Óhætt er að segja að slegnir hafi verið nýir og ferskir tónar fyrir íslenska ferðaþjónustu og hönnun sem vonandi verða nýttir í áframhaldandi sköpun og framtíðarverkefni. Ferðamálaþingið var vel skipulagt og heimamönnum til fyrirmyndar en heimamenn sjálfir áttu stóran þátt í því hvernig til tókst.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands tók upp stóran hluta af því efni sem flutt var á þinginu þannig nú geta allir þeir sem ekki gátu mætt á þingið kynnt sér það efni sem tekið var fyrir og þeir sem mættu rifjað upp einstaka efnisþætti. Fjölbreytileikinn var í fyrirrúmi á þinginu og má í þessari upptöku hlusta á fyrirlestra um landamæraleysi hugans, samspil upplifunar, hönnunar og ferðaþjónustu, nýjar víddir í mótun á upplifun, árangursríkt klasasamstarf og uppbyggingu frá Noregi, ferðaþjónustu og tónlist og raundæmi úr ferðaþjónustugeiranum eins og uppbyggingu á KEX Hostel og Icelandair svo fátt eitt sé nefnt.
Myndbönd og annað efni frá þinginu er að finna hér.