Nýsköpunarmiðstöð Íslands gefur út samantektina Áhættuþættir á heimsvísu sem ætlað er að ýta undir umræðu um efnahagslega, menningarlega og náttúrufarslega áhættuþætti sem hafa áhrif á lífsgæði Íslendinga.
Áhættuþættir á heimsvísu er samantekt úr Global Risk 2011 - An initiative of Risk Response Network skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins (World Eoconomic Forum). Með útgáfunni vill Nýsköpunarmiðstöð vekja athygli á þeim hnattrænum breytingum sem eru að eiga sér stað og ógna samfélögum en skapa á sama tíma tækifæri til nýrra viðmiða og lausna. Fyrirtæki og stofnanir á Íslandi auk einstakra atvinnugreina þurfa að huga að slíkum framtíðaráskorunum og vera meðvituð um áhrif þeirra á starfsemi og markaði. Nýsköpunarmiðstöð hefur stutt við þá þróun hérlendis að huga að slíkum ytri þáttum í stefnumótun atvinnugreina, fyrirtækja og stofnana og þá sér í lagi í gegnum innleiðingu á aðferð sem byggist á gerð ólíkra sviðsmynda sem upphafsskref við mótun stefnu.
Auk þessa hefur verið gefin út skýrsla sem nefnist
Græna hagkerfið - umhverfisvottanir, umhverfismerki og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja þar sem sérstök áhersla er lögð á nauðsyn þess að fyrirtæki og stofnanir taki upp umhverfis- og vistvænar lausnir á öllum sviðum. Í skýrslunni eru dregin fram fjögur fyrirtæki sem nýtt hafa sér umhverfismerki og vottanir til að ná frekari árangri í starfsemi sinni. Það er von Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að skýrslan gefi fyrirtækjum og stofnunum gott yfirlit yfir stöðu mála hér á landi og sé hvatning til að huga að grænkun á starfsemi fyrirtækja í takt við hugmyndafræði græns hagkerfis.
Skýrslurnar eru allar gjaldfrjálsar og er hægt að nálgast þær á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands undir valinu
Útgáfa og vefverslun.