ÁRATUGIR Í ÍSLENSKRI HÖNNUNARSÖGU
Dags: Þriðjudaginn 18. október 2011
Tími: kl. 20
ÓKEYPIS AÐGANGUR
Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 20, flytur Pétur H.
Ármannsson arkitekt fyrirlestur í Hönnunarsafni Íslands, um byggingarlist í Garðabæ. Fyrirlesturinn er fyrsti fyrirlesturinn í fyrirlestraröð um Áratugi í íslenskri
hönnunarsögu sem Hönnunarsafnið hyggst standa að á næstu misserum.
Á 7. áratug 20. aldar risu í nýjum hverfum í Garðahreppi framúrstefnuleg einbýlishús sem þóttu og þykja enn tíðindum sæta í íslenskum arkitektúr. Með almennari bílaeign og aukinni velmegun eftir stríð varð vinsælt að byggja nýtískuleg einbýlishús í úthverfabyggðum utan marka
borgarinnar og í návígi við ósnortna náttúru. Áhrif frá amerískum nútímaarkitektúr voru einkennandi á þessu tímabili. Nýjungar á borð við opin eldhús, arinveggi úr náttúrusteini, rennihurðir og samfellda gluggafleti frá gólfi til lofts urðu táknræn fyrir nútímalegan og heillandi
lífsstíl. Mörg húsanna á Flötunum og í Arnarnesi voru teiknuð af helstu arkitektum þessa tímabils og sum eru
í hópi þeirra kunnustu verka. Nýlega voru tvö hús í Garðabæ frá 7. áratugnum friðuð af Menntamálaráðherra
sem tímamótaverk í íslenskri listasögu.
Í fyrirlestrinum fjallar Pétur H. Ármannsson arkitekt um þetta merka skeið í íslenskri byggingarlist 20. aldar í máli og myndum og setur í samhengi við sögu Garðabæjar og þróun byggðar á Höfuðborgarsvæðinu. Pétur lauk prófi í arkitektúr frá háskólanum í Toronto í Kanada árið 1986. Hann lauk meistaraprófi í arkitektúr frá Cornell-háskóla árið 1990. Hann hefur unnið sem arkitekt og sjálfstætt starfandi fræðimaður ásamt því að hafa byggt upp og stýrt Byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur um árabil. Pétur hefur ritað fjölda bóka og greina og fengist við kennslu um íslenska byggingarlist.
honnunarsafn.is