Fréttir

6.10.2011

Áhugaverðir fyrirlesarar | You Are In Control 2011

  Enn fleiri fyrirlesarar hafa nú staðfest komu sína á alþjóðlegu ráðstefnuna You Are In Control sem verður haldin í fimmta sinn dagana 10. – 12. október í Hörpu. Má þar á meðal nefna frumkvöðla í gagnvirkri hönnun, sérfræðinga í höfundarrétti og brautryðjendur í stafrænni markaðssetningu. Almenn miðasala á ráðstefnuna er enn í fullum gangi á vefsíðu YAIC. Einyrkjum er svo bent á að hafa samband við Bryndísi hjá You Are In Control til að nálgast sérstakan afslátt. Einnig fá fyrirtæki innan skapandi greina afslátt ef keyptir eru nokkrir miðar og má líka nálgast þann afslátt hjá Bryndísi.



Frumkvöðlar í gagnvirkri hönnun

Listamennirnir Anita Fontaine (AUS) og Geoffrey Lillemon (USA) hafa átt stóran þátt í því að umbreyta lista- og auglýsingaheiminum með áleitinni og tjáningarríkri sköpun sinni. Saman reka þau Champagne Valentine stofuna og hefur þeim tekist með aðdáunarverðum hætti að sinna verkefnum innan auglýsingabransans, tísku, tónlistar og gagnvirkrar hönnunar án þess að fórna listrænum trúverðugleika sínum. Tvíeykið hefur verið leiðandi í nýtingu á gagnvirkri tækni og hafa nýtt sér hana m.a. við gerð tónlistarmyndbanda, tískukvikmynda, vefsíðna, forrita (apps) og leysigeisla.

Á meðal viðskiptavina Champagne Valentine eru Diesel, Tate Modern, Tim Burton, Placebo, Edun, Bernhard Wilhelm (RED) og Vh1. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Amsterdam.

Sérfræðingar í höfundarrétti

Robert Levine
(US), fyrrum ritstjóri Billboard og fréttastjóri hjá New York Magazine og Wired. Einnig hefur hann skrifað greinar fyrir Vanity Fair, Rolling Stone og menningar- og viðskiptahluta New York Times. Levine er með B.A.-gráðu í stjórnmálafræði frá Brandeis og M.S.J.-gráðu frá Medill School of Journalism í Northwestern háskólanum. Þessa dagana starfar hann bæði í Berlín og New York við skriftir um skapandi greinar. Fyrsta bók Levins kemur út í október en hún nefnist Free Ride: How the Internet is Destroying the Culture Business and How the Culture Business Can Fight Back og hefur þegar vakið mikla athygli.

Mathias Klang (SE), verkefnastjóri Creative Commons í Svíþjóð og fræðimaður og kennari í Háskólanum í Gautaborg. Mathias rannsakar löglega upplýsingatækni (legal informatics) með áherslu á höfundarrétt, tjáningu á veraldarvefnum, stafræn réttindi og reglugerðir. Þessa dagana fæst hann við rannsóknir á þessum sviðum út frá samfélagsmiðlum. Hann heldur reglulega fyrirlestra og er öflugur greinahöfundur. Mathias bloggar á síðunni digital-rights.net.

Brautryðjendur í stafrænni markaðssetningu

Iain Forsyth
og Jane Pollard (UK), hafa starfað saman síðan þau kynntust fyrst við nám í Goldsmiths skólanum árið 1995. Síðustu 10 árin hafa þau bæði unnið með þekktustu sjálfstæðu útgáfufyrirtækjum Bretlands (Jane hjá Beggars Group og Iain hjá Mute) við að móta stefnu þeirra og nálgun á stafrænni og skapandi markaðssetningu. Iain og Jane eru brautryðjendur í stafrænni markaðssetningu á tónlist og hafa þau í síauknum mæli fengist við að búa til kynningarefni fyrir tónlistarfólk, m.a. Nick Cave, The White Stripes, Adele, Radiohead, Depeche Mode og Moby. Þess má einnig geta Jane hefur unnið til fimm Digital Music verðlauna og er nú yfirmaður vefmála og stafrænnar markaðssetningar hjá Beggars. ___________________________________________________________________________
Fyrir nánari upplýsingar um You Are In Control, skráningu á ráðstefnuna og tilboð:
Bryndís Hjálmarsdóttir kynningarfulltrúi
bryndis@youareincontrol.is
Sími: 571 5660 / 865 2633
www.youareincontrol.is 
facebook.com/youareincontrol 
twitter.com/youareincontrol
















Yfirlit



eldri fréttir