Fréttir

1.9.2011

Nýr farvegur | Ráðstefna um mótun hönnunarstefnu Íslands














Hönnun snýst fólk, samfélag og umhverfi. Hún eykur gæði og virði, svo það að móta stefnu og framtíðarsýn um hönnun snýst um að auka virði og gæði þeirrar vöru og þjónustu sem framleidd er í landinu.

Föstudaginn 26. ágúst var ráðstefnan Nýr farvegur | Ráðstefna um mótun hönnunarstefnu Íslands haldin í Hörpu.
Þar voru meginspurningarnar sem fyrirlesarar veltu fyrir sér:
  • Hvaða gildi hefur hönnun fyrir samfélagið?
  • Hvernig hefur hönnun áhrif á velgengni fyrirtækja?
  • Hvernig getur hönnun tekið þátt í hinni óhjákvæmilegu umbreytingu yfir í umhverfisvæna lifnaðarhætti?









Fyrirlesarar voru bæði íslenskir og erlendir og ræddu þeir um tengsl og notkun hönnunar í stóru samhengi. Einnig var farið í sértækari tækifæri og áskoranir sem hönnuðir mæta hérlendis, s.s. skattavandamál vegna inn- eða útflutnings, hvernig hugmyndin um íslenska náttúru hefur verið notuð og þróuð, hvar tækifæri leynast og svo mætti lengi telja.

Nokkur af mikilvægustu atriðunum sem voru rædd á ráðstefnunni:
  • Mikilvægi gagnrýnnar umræðu. Til að halda vörð um gæði hönnunar og arkitektúrs, verðum við að vera gagnrýnin og virkja umræður.
  • Stuðningur við rannsóknir og menntun. Meistarastig í hönnun ætti að vera forgangsatriði.
  • Hver eru þau íslensku verðmæti sem við viljum standa vörð um? Hönnunarstefna er eitt af þeim verkfærum sem má nota til að ýta undir að þau verðmæti séu vernduð.
  • Hönnunarmiðstöð er eitt af þeim mikilvægu batteríum sem þarf að styrkja. Í þeim löndum sem hafa öfluga hönnunarsenu er kjarni sem sér um kynningarmál, hvetur til umræðna um hönnun og er ráðgefandi.
  • Útflutningur íslenskrar hönnunar er flókið ferli og þær hindranir sem verða á vegi þeirra sem hyggjast flytja út íslenska hönnun er allt að því óyfirstíganlegar. Það gerir það að verkum að tekjur af útflutningi eru einungis brot af því sem þær gætu verið.
  • Efla þarf tengslin milli hönnunargeirans og viðskiptageirans. Og einnig tengsl nýsköpunar og hönnunar.
  • Við þurfum að breyta lífsmynstri okkar. Við þurfum að einfalda flækjustig þeirra kerfa sem móta líf okkar. Ekki síður þurfum við að breyta þeim kerfum þannig að manneskjan sé í forgrunni. Tími neyslusamfélagsins er að líða undir lok og við verðum að vera tilbúin að fagna breytingum, og þar gegna hönnuðir mikilvægu hlutverki við að tengja saman starfsgreinar og að hugsa út fyrir rammann.

Fyrirlestrar á mynd- og hljóðformi verða aðgengilegir von bráðar á slóðinni http://www.honnunarstefna.is ásamt nánari upplýsingum um verkefnið.

Ef þig langar að fylgjast með ferlinu við mótun hönnunarstefnunnar, skráðu þig þá á póstlistann hér: http://bit.ly/qEwzqo.


Myndirnar frá ráðstefnunni eru í boði GLAMOUR | The concept boutique, www.glamour.is.
















Yfirlit



eldri fréttir