Fréttir

29.8.2011

Samkeppnisgögn arkitekta verða varðveitt í Hönnunarsafni Íslands


Arkitektafélag Íslands og Hönnunarsafn Íslands hafa undirritað samning um að safnið varðveiti samkeppnisgögn úr samkeppnum sem haldnar eru eftir reglum Arkitektafélags Íslands. Ekkert safn hefur haft það hlutverk að varðveita slík gögn hér á landi, en samkeppnisgögn veita, þegar frá líður, mikilvæga innsýn í starf einstakra arkitekta og arkitektastofa og bera vitnisburð um strauma og stefnur í byggingarlist.

Heimildagildi í slíkum safnkosti er dýrmætt og með varðveislunni vilja bæði Arkitektafélagið og Hönnunarsafnið stuðla að aðgengi rannsakenda að slíkum gögnum, svo og faglegri meðhöndlun við varðveislu þeirra.

Á síðustu árum hafa verið haldnar stórar samkeppnir í byggingarlist hér á landi og er ljóst að sá vitnisburður sem samkeppnisgögnin veita, á vel heima í safnkosti safns sem byggir upp heimildir og vinnur að því að efla rannsóknir um íslenska hönnunarsögu. Hrólfur Karl Cela framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands og Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands undirrituðu samninginn sem tekur nú þegar gildi.

honnunarsafn.is
















Yfirlit



eldri fréttir