Fréttir

22.8.2011

Nýr Farvegur | Ráðstefna um hönnunarstefnu Íslands


 
Nýir tímar kalla á nýja hugsun og nýjar leiðir.


Í þessum mánuði fór Apple hönnunarfyrirtækið upp fyrir Exxon olíurisann yfir verðmætustu fyrirtæki heims. Þó það hafi staldrað stutt á toppnum er það táknrænt fyrir þau straumhvörf sem nú eru að eiga sér stað og ber vitni um mikilvægi heildrænnar hönnunar.

Margar þjóðir telja skapandi greinar vera einn mikilvægasta vaxtarbroddinn í atvinnusköpun og samkeppnishæfni þjóða þar sem gæði og heildstæð framsetning skipta sífellt meira máli. Rannsóknir hafa sýnt að að fyrirtæki sem nýta hönnun í vöruþróun og nýsköpun vaxa hraðar og eru líklegri til að ná árangri á alþjóðlegum markaði.

Hönnun skiptir gríðarlegu máli í þróun í átt að sjálfbæru samfélagi og grænu hagkerfi þar sem unnið er á heildrænan hátt út frá umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum þáttum.

Íslenski hönnunargeirinn hefur vaxið undanfarin ár en möguleikar hönnunar eru þó síður en svo fullnýttir. Víða leynast vannýtt tækifæri til vöruþróunar, nýsköpunar og þjónustuhönnunar og enn gætir þeirra skoðana að hönnun takmarkist við útlitslega þætti.

Fjölmargar þjóðir heims hafa mótað sér hönnunarstefnu og hafa Norðurlöndin verið þar í fremstu víglínu og náð góðum árangri - nú er komið að okkur!

Á ráðstefnunni „Nýr farvegur“, 26. ágúst 2011 í Hörpunni verður kafað dýpra í þessi málefni. Bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar munu fjalla um gildi hönnunar frá ýmsum sjónarhornum. Ráðstefnan fer fram í Silfurbergi í Hörpu og er hún ætluð öllu áhugafólki um hönnun eða viðskipti.

Miði á ráðstefnuna kostar 4.500 kr og er hádegismatur og léttar veitingar innifaldar í verði. Miðasala fer fram á midi.is og við inngang í salinn í Hörpu. Ráðstefnan fer fram á ensku.


NÝR FARVEGUR – Erlendir fyrirlesarar:
  • Jan R. Stavik | hagfræðingur og framkvæmdastjóri norska hönnunarráðsins.
  • Elizabeth (Dori) Tunstall | prófessor við Swinburne háskólann í Melbourne og skipulagði mótun hönnunarstefnu Bandaríkjanna.
  • John Thackara | rithöfundur, fyrirlesari og ritstjóri hefur verið áhrifamikill í umræðunni um tengsl hönnunar við samfélag, umhverfi og efnahag síðan á áttunda áratugnum.
  • Auk þeirra verða kynnt vel heppnuð dæmi um beitingu hönnunarhugsunarháttarins við vöruþróun og verðmætasköpun.
Nýr Farvegur | Dagskrá

Dagskrá ráðstefnunnar (pdf)

Hægt er að kynna sér málið nánar á honnunarstefna.is á vef Iðnaðarráðuneytisins.
















Yfirlit



eldri fréttir