Fréttir

20.7.2011

Pistlar | Byggingarlist í Víðsjá



Guja Dögg Hauksdóttir arkitekt mun flytja pistla um samband vatns, landslags, loftslags og byggingarlistar í Víðsjá næstu vikur. Pistlarnir eru fluttir á þriðjudögum á sumartíma Víðsjár eða milli klukkan fimm og sex síðdegis á rás 1 á RÚV.


Lystauki úr fyrsta pistlinum:

Ein af nautnalegustu upplifunum sem náttúra Íslands hefur upp á að bjóða er að stíga nakinn (eða klæðlítill) niður í laug með heitu vatni úr iðrum jarðar, bara stíga niður og láta vatnið umlykja sig allan og gefa eftir fyrir líkamlegri vellíðan. Alger andstæða lauganna eru fjörurnar við strendur landsins, þar sem sjaldnast er hægt að fara úr skóm eða jakka vegna svalandi hafgolu eða hreinlega roks, en endalaus víðáttan út undir sjóndeildarhring togar hugann langt út úr líkamanum svo kitlandi gæsahúð eða kaldir fingurgómar fá enga athygli eða eftirtekt.

Í útlöndum er þessu öfugt farið - þar eru laugar allajafna kaldar og illa lyktandi af viðbættum klór sem engan langar að dvelja í lengur en markviss líkamsræktaráætlun fyrirskipar, á meðan strendur við framandi höf bjóða upp á heitan sand sem vekur tærnar til lifsins, lokkandi öldugjálfur sem kallar á nánari kynni og stefnulaus sundtök í hafinu með fiskum og flaksandi þangi.

Byggingarlist staðanna dregur dám af þessum ólíku forsendum. Þegar best lætur vinnur hið manngerða umhverfi með einkennandi þáttum og ríkjandi andrúmi hvers staðar og færir þannig landslagið í skiljanlegt form. Steinsteypt og ómálað Ljóskastarahús yst á Seltjarnarnesi dregur með stefnuvirku grafísku formi sínu athyglina út og burt frá köldum, blautum sandinum í fjörunni. Og vel valið grjót sem lagt er af alúð svo myndar opinn hring Gvendarlaugar í grónu undirlendi Bjarnarfjarðar hefur aðdráttarafl sem sogar til sín - innúr og með mýktinni í dýgrænum mosanum.
 
















Yfirlit



eldri fréttir