Fréttir

15.6.2011

Sumarsýning Hönnunarsafnsins | Hlutirnir okkar




Tunö klukka eftir Hlyn Vagn Atlason (1974)

Skatan eftir Halldór Hjálmarsson (1927-2010)
Frá stofnun Hönnunarsafns Íslands árið 1998 hafa safninu borist eftir ýmsum leiðum margir prýðilegir gripir sem varpa ágætu ljósi á íslenska hönnun. Safneignin endurspeglar nú þegar fjölbreytileika á ólíkum sviðum hönnunar. Stærsti hluti safneignarinnar eru íslensk húsgögn og þá sérstaklega stólar. Í dag á safnið um 1200 gripi og meðal þeirra eru einnig markverðir hlutir eftir erlenda hönnuði, ekki síst þá norrænu, í ljósi þess menningarumhverfis sem við erum hluti af.

Íslensk hönnunarsaga er óljós að því leyti að hún hefur ekki verið rannsökuð til hlítar og almenningur hefur ekki haft greiðan aðgang að þessari sögu. Þó eigum við auðvelt með að draga upp mynd af mörgu því sem hefur skapað hönnunarvettvang á Íslandi, til að mynda af þeirri iðnvæðingu sem hér varð á 20. öldinni við nútímavæðingu íslensks samfélags.

Eftir seinni heimsstyrjöldina ríkti tímabil mikilla framfara og áratugirnir frá 1945-1975 mörkuðu alger þáttaskil í vestrænni hönnunarsögu. Velsæld og hagvöxtur hjá fjölda þjóða sköpuðu ný skilyrði sem fólu ekki síst í sér að neyslusamfélög byggðust upp. Því var ekkert öðruvísi farið hér á Íslandi. Húsgagna- og fataiðnaður komst á legg og í skjóli tollahafta sköpuðust tækifæri fyrir nýja stétt húsgagnahönnuða að fá verk þeirra framleidd fyrir heimamarkað. Margt af því sem hér er sýnt er frá þessum tíma íslenskrar húsgagnaframleiðslu.

Söfnunarsvið safnsins er afar stórt og á næstu árum verður lögð áhersla á að forgangsraða aðföngum mismunandi hönnunargreina. Á sýningunni er aðeins lítið brot úr safneign safnsins og aðeins hluti þeirra hönnunarsviða sem við söfnum, er sýndur. Gripirnir á sýningunni eru frá ólíkum tímum og þar blandast saman listhönnun, nytjalist, iðnhönnun, frumgerðir, teikningar og nýjasti flokkur hönnunar á Íslandi, vöruhönnun.

Á síðustu tíu árum hefur íslenskri hönnun vaxið fiskur um hrygg. Vitund almennings um mikilvægi góðrar hönnunar og hvernig hún er hluti af menningu okkar og sjálfsmynd hefur aukist. Við eigum að þekkja nöfn hönnuða okkar og þeirra helstu verk, rétt eins og við þekkjum nöfn íslenskra leikara , listamanna og rithöfunda. Það er spennandi verkefni sem Hönnunarsafn Íslands tekur þátt í.

Harpa Þórsdóttir forstöðumaður

honnunarsafn.is
















Yfirlit



eldri fréttir