Fréttir

17.5.2011

Nordic Fashion Biennale




Norræni tískutvíæringurinn, Nordic Fashion Biennale, verður haldinn í Seattle 30. september – 13. nóvember.


Norræni tískutvíæringurinn var fyrst haldinn af frumkvæði Norræna hússins í Reykjavík 2009 með stórkostlegum árangri: 60 hönnuðir og listamenn tóku þátt og fékk viðburðurinn mikla umfjöllun hér heima og erlendis.

Í ár verður viðburðurinn haldin í Nordic Hertiage Museum í Seattle sem er meðframleiðandi að viðburðinum. Nordic Hertiage Museum er safn sem miðlar norrænum menningararfi en það er staðsett í Ballard hverfinu í Seattle sem var byggt upp af norrænum landnemum á 19.öld.

NFB er sýning á norrænni tísku- og skartgripahönnun með sérstaka áherslu á Færeyjar, Ísland og Grænland. Janframt verða hönnuðir frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi hluti af viðburðinum í ár. Helgina 30.september – 2.október verður haldin ráðstefna, í tengslum við viðburðinn, um sjálfbærni í tískuiðnaðunum og taka um 20 fyrirlesarar þátt í henni. Ráðstefnan fer einnig fram í Nordic Heritage Museum í Seattle. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna koma síðar.

Sýningarstjóri og listrænn stjórnandi NFB 2011 er Hrafnhildur Arnardóttir, www.shoplifter.us, og sér hún um að velja alla þátttakendur í sýningarhluta NFB sem hlotið hefur nafnið Looking back to find our future. Sýningartitillinn vísar í menningarfinn og þann innblástur sem hann getur veitt hönnuðum dagsins í dag. Hrafnhildur býr og starfar í New York og hlaut á dögunum Norrænu textílverðlaunin, The Nordic Textile Prize.

Staðfestir þátttakendur í NFB í ár eru: Hildur Yeoman og Saga Sigurðardóttir (IS), Mundi (IS), Aftur (IS), Vík Prjónsdóttir (IS), Steinunn Sigurðardóttir (IS), Guðrún og Guðrún (FO), Marianna Mørkøre og Rannvá Káradóttir (FO), Julie Edel Hordenberg (GRL) og Bibi Chemnitz (GRL). Fleiri hönnuðir verða tilkynntir síðar. Gert er ráð fyrir að hátt í 30 hönnuðir taki þátt í NFB í ár og koma þeir frá öllum Norðurlöndunum en eins og áður kom fram er sérstök áhersla á Grænland, Færeyjar og Ísland.

NFB er haldinn annað hvert ár á nýjum stað í hvert sinn með nýjum sýningarstjóra en aðalframleiðandi NFB er og verður Norræna húsið í Reykjavík. NFB er ein stærsta kynning á norrænni fatahönnun fyrir utan Norðurlöndin. Seattle og Reykjavík eru systurborgir og þar er mikill áhugi á norrænni menningu enda eiga margir íbúar rætur að rekja til Norðurlandanna.

Fatahönnunarkeppnin N X NW er haldin í tengslum við NFB þar sem lagt er áherslu á að þátttakendur kynni sér norræna hönnun og noti hana sem innblástur. Byrjað verður að taka við tillögum frá og með deginum í dag og til 15. júlí. Í verðlaun er ferð til Íslands næsta vor. Nánari uplýsingar um keppnina er að finna á: http://www.nordicfashionbiennale.com/nfb/competition

Á síðunni www.nordicfashionbiennale.com er hægt að kynna sér viðburðinn nánar.

Frekari upplýsingar veitir verkefnastjóri NFB, Ilmur Dögg Gísladóttir, s. 5517019 og 6980298


















Yfirlit



eldri fréttir