Fréttir

28.4.2011

Hreyfiafl | Samræðuþing




Samræðuþing hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Laugardaginn 30. apríl 2011 kl. 10.00 – 17.00

10 ár eru liðin frá því að hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans tók til starfa. Af því tilefni efnir deildin til samræðuþings undir nafninu Hreyfiafl. Hreyfiaflið verður virkjað í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, fjölnotasal laugardaginn 30. apríl næstkomandi frá kl. 10 til kl 17.

Tilgangur samræðnanna er að varpa ljósi á verkefni deildarinnar og tenginguna út samfélagið, ásamt því að ræða um rannsóknatengt umhverfi. Efnt er til samræðna um samstarfsverkefni við hönnunarsamfélagið, atvinnulífið og hvernig efla megi samtal milli fræða og skapandi lista, sem og um þekkingarsköpun í hönnun.

Á Hreyfiaflsfundinum gefst tækifæri til að kynnast fjölbreyttum viðfangsefnum kennara deildarinnar en í framsöguerindunum verður meðal annars fjallað um arkitektúr og Reykjavíkurgötur, kynjað siðferði hönnuða, stefnumót við bændur, gæði fatahönnunar og upplýsingahönnun.

Nánari upplýsingar um dagskrá má finna á heimasíðu skólans lhi.is.

Um leið býðst gestum að skoða yfirstandandi útskriftarsýningu Listaháskóla Íslands. Í ár eru 72 útskriftarnemendur sem sýna verk sín, 53 í hönnunar- og arkitekúrdeild og 19 í myndlistardeild. Sýningin stendur til 8. maí og er opin daglega frá kl. 10.00 – 17.00, fimmtudaga frá kl. 10.00 – 20.00. Sýningarstjórar eru: Erling Klingenberg, Atli Hilmarsson og Hörður Lárusson. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Nánari upplýsingar veitir Lilja Gunnarsdóttir kynningarstjóri útskriftarsýningar LHÍ í síma: 552 4000 / 694 2076 og í tölvupósti á liljag11@lhi.is
















Yfirlit



eldri fréttir