Fréttir

24.3.2011

Göngum í takt | HönnunarMars 2011

 

HönnunarMars var fyrst haldinn í mars 2009 þegar Íslendingar stóðu á miklum tímamótum – fjármálakerfið hrunið og búið að boða til Alþingiskosninga. Undirbúningur fyrsta HönnunarMarsins fór fram undir taktfastri hrynjandi Búsáhaldabyltingarinnar við Austurvöll. Tími breytinga. Strax þá var litið til nýsköpunar sem leiðarinnar út úr því erfiða þjóðfélagsástandi sem skapast hafði. Gætu hönnuðir átt hlutverki að gegna þar? Eitthvað þurfti að gera. Tæplega eins árs gömul Hönnunarmiðstöð fór ekki varhluta af ástandinu og ljóst þótti að stórt kynningarátak á íslenskri hönnun, samstilling strengja og fjöldi lóða á vogarskálar var nauðsynlegur.
 
 
 

 
 

Hönnun á Íslandi er ekki ný af nálinni en gríðarlegur árangur og vitundarvakning hefur átt sér stað á undanförnum árum. Dagskrá þriðja HönnunarMarsins spannar vítt svið, allt frá helstu hönnuðum þjóðarinnar sem sýna hvað í þeim býr, til nýútskrifaðra hönnuða sem stíga nú sín fyrstu skref. Á HönnunarMars er hönnun kynnt sem atvinnugrein sem byggir á traustum grunni og gegnir veiga- miklu hlutverki á tímum mikilla breytinga.

Íslenskir hönnuðir eiga og reka Hönnunarmiðstöð. Hún hefur mikilvægu hlutverki að gegna því að með tilkomu hennar hefur skapast vettvangur fyrir hönnuði til að vinna að uppbyggingu hönnunar og arkitektúrs á eigin forsendum. Nýlega var verkefninu Mótun hönnunarstefnu ýtt úr vör en þar fá íslenskir hönnuðir tækifæri til að móta þjóðinni markvissa hönnunarstefnu og hrinda henni í framkvæmd í samstarfi við stjórnvöld.

Aðferðafræði hönnunar býr yfir einstökum tækifærum til sköpunar og endursköpunar. HönnunarMarsinn örvar, hvetur og ýtir undir sköpun því að þar mætast hönnuðir, fyrirtæki, framleiðendur og kaupendur; nýir möguleikar og tækifæri verða til.

Ekkert einstakt verkefni hefur vakið eins mikla athygli á íslenskri hönnun og HönnunarMars – hvort sem litið er til almennings, íslenskra fjölmiðla, stjórnvalda eða erlendra aðila.

Þeir sögðu, spekingarnir, þegar búsáhaldadrunurnar þögnuðu við Austurvöll 2009 að sennilegast yrði árið 2011 erfiðast, þá yrði botninum náð. Hvað gerir maður þegar þangað er komið? Jú, maður spyrnir sér upp. Fast…

Sjáumst í takt á HönnunarMars.
















Yfirlit



eldri fréttir