Fréttir

17.3.2011

Vatnavinir | Global Award for Sustainable Architecture 2011



Vatnavinir hafa hlotið hin virtu alþjóðlegu verðlaun í arkitektúr „Global Award for Sustainable Architecture 2011“ fyrir verkefnið Heilsulandið Ísland.  Verðlaunin eru veitt af Locus Foundation sem hefur það að markmiði að veita arkitektum er starfa víða um heim viðurkenningu fyrir framþróun á sviði sjálfbærni í arkitektúr.  Yfir 200 tilnefningar bárust til verðlaunanna og eru fimm viðurkenningar veittar á ári hverju. Vatnavinir samanstanda af alþjóðlegum hópi fagfólks sem koma úr ólíkum greinum byggingarlistar, hönnunar, markaðssetningar, ferðamennsku, heimspeki og listum.  Arkitektarnir og félagarnir í Vatnavinum Olga Guðrún Sigfúsdóttir, Sigrún Birgisdóttir  og Jörn Frenzel kynna verkefni Vatnavina í Cité de l´Architecture í París og taka þátt í ráðstefnu á vegum Unesco og Locus Foundation „ Rediefining progress: Architecture for a new Humanism“ í lok maí á þessu ári.

Vatnavinir hafa unnið að hugmyndafræði sem byggir á fjölbreyttri uppbyggingu atvinnulífs og sjálfbærri nýtingu auðlinda Íslands með heilsutengdri ferðaþjónustu í nánum tengslum við jarðvarma og náttúru landsins. Undir yfirskriftinni Heilsulandið Ísland hafa þau kortlagt staði og möguleika, og unnið að endurbótum á eldri laugum og baðstöðum ásamt því að koma að uppbyggingu nýrra heilsulinda víðsvegar um landið. Baðmenning Íslendinga er einstök á heimsvísu og byggir hún á einstökum náttúrgæðum landsins. Vatnið, bæði heitt og kalt er ómengað og gætt fjölbreyttum eiginleikum og er aðdráttarafl fyrir innlenda sem erlenda gesti. Verkefnið Heilsulandið Ísland hefur að markmiði að byggja á  einstakri staðarmyndun heitra lauga á Íslandi og nýta laugarnar til stuðla að fjölbreyttri heilsutengdri afþreyingu og upplifunum fyrir ferðamenn.  Verkefnið fjallar um að virkja samvinnu þeirra fjölmörgu aðila sem koma að atvinnusköpun og ferðaþjónustu um land allt.

Vefsíða Vatnavina: www.vatnavinir.is
Vefsíða Locus Foundation: www.locus-foundation.org og www.global-award.org.






















Yfirlit



eldri fréttir