Fréttir

14.3.2011

Guðmundur Oddur Magnússon | Hönnunarmars


Grein eftir Guðmund Odd Magnússon sem birtist í Viðskiptablaðinu 17. mars 2011.

Framundan er svo kallaður hönnunarmars sem er eins konar boðberi vors og gróanda í okkar ágæta samfélagi. Já, boðberi vors og gróanda - það er ekki á mörgum öðrum stöðum í samfélaginu þar sem eins mikið er reynt að horfa fram á við með bjartsýnisaugum í kreppuumhverfi. Þetta er í þriðja sinn sem hann er haldinn og tengist óneitanlega hruninu og viðbrögðum við því. Eitt af hlutverkum hönnunar er að umbreyta umhverfinu eða að ná sátt við það aftur ef að út af brá. Aldrei er meiri þörf fyrir það þegar við finnum fyrir því að hlutirnir eru ekki réttir og okkur líður ekki beint vel. Rétt er að huga nánar að þessu fyrirbæri, hönnun, sem nánast allir vita hvað er þegar þeir sjá og finna fyrir því, en hugsa kannski ekki svo mikið út í. Allavega ekki oft. Eða hvað? Kannski er það nefnilega oftar en okkur grunar. Við hugsum um stólanna sem við sitjum á, áhöldin sem við borðum með, fötin sem við klæðumst, meira að segja maturinn sem við borðum er ótrúlega oft „hannaður“ til góðs og líka til ills. Rúmin sem við sofum í, leikföng barnanna, einkabíllinn, hjólið, strætóinn, flugvélarnar, bækurnar, dagblöðin, tímaritin og plötuumslögin, flugvöllin, göturnar, húsin o.s.frv.. Sjáið þið bara hvað hið manngerða umhverfi hefur mikil inngrip í líf okkar. Útlit flestra þessara hluta eru verk hönnuða allavega - og oftast miklu meira en það. Hugmyndir skipta svakalegu máli. Hafiði pælt í því að allt þetta verður fyrst til sem hugmynd. Hugmynd að einhverju sem var ekki til en verður það. Það þurfti að nota ímyndunaraflið og hugarflugið til að framkalla hugmynd. Hugmynd að nýjum stól, nýjum æfingatækjum, nýrri geimferju, nýrri tískulínu, nýju útliti á peningum eða kreditkortum ekki satt?


Til þess að draga upp stóru myndina, að þá er fyrirbærið, að sjá fyrir það óorðna og framkvæma það, auðvitað  þúsaldagamalt þó að hugtakið - hönnun sé ekki nema um fimmtugt í íslenskri tungu og kannski um 150 ár gamalt í vestrænni menningu. Hvað er átt við með því? Hönnun eins og við skilgreinum fyrirbærið í dag tengist iðnbyltingunni í Evrópu. Sérstaklega hinni síðari á seinni parti 19. aldar. Þetta tengist iðnaði, fjöldaframleiðsu, vélvæðingu og markaðssetningu. Íslendingar mynduðu borg svo seint á 20. öld. Verksmiðjur og fjöldaframleiðsla þurfa borgarsamfélag. Ja, nema síldarverksmiðjur en þá fluttu líka allir sem þar unnu í verbúðaborgir á meðan síldin gekk en svo hvarf hún og bráðabirgðaborgin með. Það er þess vegna sem við þýddum ekki einu sinni hugtakið „design“ fyrr en um 1960 - við vorum ekki orðin nógu fjölmenn fyrr en þá. Þetta tengist líka hugmyndum um lífsstíl og tísku. Hugtakið hönnun þýðir að farið var að forhanna og smíða einingar sem síðar voru settar saman af einhverjum öðrum en þeim sem fékk hugmyndina. Þá verður til á afgerandi hátt ákveðinn verkaskipting og aðskilnaður á milli huga og handar. Það er stundum sagt að fyrir iðnbyltingu hafi verkþættir sjónlista svo að segja verið á einni hendi, hugmynd, útfærsla, framkvæmd og dreifing og síðar markaðssetning. Það breyttist allt vegna tilkomu vélarinnar.


Það sem við fagfólk skilgreinum sem hönnun að þá nær sú skilgreining yfir alla undirbúningsvinnuna fyrir smíðaðan eða framleiddan hlut en ekki hlutinn sjálfann. Hönnuðir fylgja svo oft hlutnum í framleiðslu. Framkvæma gæðaeftirlit. Hönnun er nefnilega alls ekki hluturinn sjálfur í okkar huga. Við segjum eiginlega aldrei um hlut eða grip að hann sé í sjálfu sér góð eða slæm hönnun. Við segjum að hann sýni góða eða slæma hönnunarvinnu. Það er forvinnan sem skiptir öllu máli. Hugmyndin og útfærsla hennar. Hönnun snýst ekki um að láta framleiða helling af drasli sem við höfum mismikla þörf eða notkun fyrir og í ofboðslega mörgum tilvikum enga raunverulega þörf fyrir. Flestir hönnuðir standa frammi fyrir því að hönnun er þjónustugrein. Það getur verið erfitt því að þeir geta lent í því að hanna fullkomið drasl vegna þess að einhverjir ráða þá til þess að teikna svoleiðis dót upp í kjaftinn á vélinni. Því miður er til hönnuðir sem fást til svoleiðis skítaverka. Þetta er ekki þeim að kenna en þeir bera engu að síður ábyrgð. Aðrir kalla hönnun „problem solving“ - Það þýðir að leitað er til hönnuða vegna þess að leysa þarf „vandamál“ - Margir vilja ekki kalla þetta próblem - segjast ekki sjá nein próblem. Þetta sú einfaldlega verkefni. Nú og sem betur fer eru til vandaðir hönnuðir sem vilja það eitt að gera heiminn betri.


Hlutverk hönnuða á tímum breytinga er mikið. Það er horft til þeirra vonaraugum. Þegar ofgnóttin ríður húsum er pláss fyrir alls kyns vitleysu. Þegar sá þolþröskuldur er farinn kemur í ljós hverjir hafa raunverulega hæfileika. Margir kynna sig sem hönnuði en eru oft eitthvað allt annað. Verkfræðingar og tæknifræðingar fá stundum flugur í hausinn. Þeir eru nefnilega nauðsynlegir þjónar fyrir hönnuði en þeir er skelfilegt fyrirbæri ef þeir fá stjórnina. Þeir kunna útreikninga en þeirra tilfinningar eru venjulega frosnar og innsæið venjulega eins og lokuð bók. Þeir hafa ekki heildræna sýn. Það sama á við um alls kyns uppfinningamenn sem kalla sig stundum hönnuði. Það er alveg rétt að stundum koma frábærustu hlutirnir frá þeim en það er nefnilega lóðið að frábærir hlutir geta komið all staðar fram hjá þeim sem nenna að hugsa. Það sem er að sjálfmenntuðum uppfinningamönnum er að þeir kunna ekki eða hafa sjaldan þekkingu eða yfirsýn yfir það sem þegar hefur verið gert. Þeir kunna ekki þá list að forgangsraða því sem skiptir máli. Til þess er menntunin. Það er alls ekki þar með sagt að þeir sem mennti sig formlega nái þessi. Það er í raun furðu fáir nemendur sem ná raunverulegum árangri í hönnun. Jú, þau eru velflest hæf! En það er bara ekki nóg. Það er svo margt sem hangir á því að vel takist til. Margt það besta gerist vegna þess að menn ná að vinna saman.


Við gætum til dæmis ímyndað okkur uppfinningamann sem fengi snilldarhugmynd. Engin skildi snilldina nema vel menntaður vöruhönnuðir sem vissi að margir væru búnir að leita að lausn sem væri falinn í þessari hugmynd. Hann kynna að matreiða hana þannig að tækni- og fjármagns fólk skildi. Hann fyndi svo góðan verkfræðing til þess að tryggja að hugmyndin virkaði rétt og skilaði raunverulegum árangri. Fábært handverskfólk og iðnaðarmenn kæmu að frumgerðarsmíðinni. Rétta fyrirtækið fundið eða stofnað utan um vöruna. Svo kæmu inn í þetta markaðsfólk og grafískir hönnuðir með rétt lógó. Ákveðin goðsögugerð og ímyndarsmíði færi í ganga með spuna- og textafólki. Ráðamenn myndu fatta þetta og fjárfestar líma sig á hugmyndina. Fundin réttur staður og tími fyrir helgileik til að afhjúpa eða fæða vöruna með forsetanum og fylgdarliði fulla af aðdáun og stolti. Þjóðin fengi innspýtingu til dáða og framkvæmda og salt með grautnum í kaupbæti! Enginn einn gerði þetta. Við gerðum þetta öll. Þetta tókst afskaplega vel vegna þess að við stóðum saman og sjálhverfan eyðilagði ekki neitt. Hin raunverulega hönnunarstefna þjóðarinnar í hnotskurn ætti hljóma einhvern veginn svona.


















Yfirlit



eldri fréttir