Íslandsstofa, Hönnunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtök iðnaðarsins auglýsa eftir umsóknum um þátttöku í þróunarverkefninu Hönnun í útflutning. Markmið verkefnisins er að leiða saman hönnuði og fyrirtæki í samvinnu um hönnun og framleiðslu á útflutningsvörum. Þátttakendur í verkefninu munu fá framlag að upphæð 500.000 kr. til að standa straum af hönnunarkostnaði, gegn a.m.k. jafnháu mótframlagi fyrirtækisins.
Tilgangur verkefnisins og áherslur eru eftirfarandi:
- Að leiða saman framleiðendur og hönnuði, innleiða sýn hönnunar við vöruþróun og efla þátt hönnunar innan fyrirtækja.
- Auka innlenda framleiðslu á útflutningsvörum hjá framleiðslufyrirtækjum í útflutningi, skapa ný tækifæri í útflutningi, nýta hugvit, hráefni og framleiðslumöguleika.
- Hvetja fyrirtækin til að hefja útflutning þó þau hafi einungis selt á heimamarkaði til þessa.
Verkefnið verður kynnt samhliða foropnun 10 + sýningar Félags húsganga- og innanhússarkitekta, á HönnunarMars miðvikudaginn 23. mars kl. 17:30 að Grandagarði 16.
Þar mun Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra opna sýninguna og Jón Ásbergsson kynna verkefnið. Að lokinni dagskrá verða léttar veitingar í boði samstarfsaðila. Þar skapast einstakt tækifæri fyrir hönnuði og fyrirtæki að hittast.
Verkefnið stendur í 7 mánuði frá því að þátttakendur hafa verið valdir og verða niðurstöðurnar kynntar á sérstakri sýningu.
Umsóknarfrestur er til 27. apríl nk.
Þeir sem hafa hug á að skrá sig á kynninguna eru hvattir til að gera það sem fyrst í síma 511 4000 eða með tölvupósti,
islandsstofa@islandsstofa.is.
Nánari upplýsingar og móttaka umsókna: Björn H Reynisson verkefnisstjóri,
bjorn@islandsstofa.is, Hermann Ottósson forstöðumaður,
hermann@islandsstofa.is eða inná
www.islandsstofa.is. Upplýsingar má einnig nálgast s. 511 4000.
Hönnuðum er velkomið að hafa samband við Hönnunarmiðstöð Íslands til að fá nánari upplýsingar um verkefnið s.771 2200.