Fréttir

14.3.2011

Tíu dagar í HönnunarMars 2011



HönnunarMars er fjögurra daga hönnunarhátíð í Reykjavík þar sem dagskráin er barmafull af fjölbreyttum og spennandi viðburðum af ýmsu tagi. Hönnuðir bjóða almenningi að kynna sér heim hönnunar með áhugaverðum sýningum og fróðlegum fyrirlestrum sem endurspegla fjölbreytta flóru íslenskrar hönnunar og arkitektúrs.


HönnunarMars verður haldinn dagana 24. til 27. mars, boðberi vorsins og gróskunnar í íslenskri hönnun og lífleg bæjarhátíð. Um alla borgina – í tómum vöruhúsum, verslunum, galleríum, veitingastöðum sem og á götum úti – hitta gestir fyrir leiðandi íslenska hönnuði jafnt sem þá upprennandi, sem grasrótinni tilheyra.

Dagskrá HönnunarMars 2011 er fjölbreytt og glæsileg. Kynntar eru nýjar vörur með ótrúlega fjölbreyttan bakgrunn; sumar spretta upp af jörðinni, aðrar koma nánast af himnum ofan. Hönnuðir sameinast um sýningar og dagskrá sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Dæmi um yfir hundrað viðburði HönnunarMars 2011 eru sýning á verkum textíllistakonunnar Hrafnhildar Arnardóttur / Shoplifter í Hönnunarsafni Íslands; treflaverksmiðja Víkur Prjónsdóttur; húsgagnasýningin 10+; Hræringur, sýning íslenskra fatahönnuða; vinnustofa KRADS arkitekta og LEGO; kynning á nýstárlegu skyrkonfekti og sýning Sruli Recht.

HönnunarMars er mikill heiður sýndur með þátttöku hönnuðanna Jerszy Seymour, hollenska arkitektsins Winy Maas, finnska hönnuðarins Ilkka Suppanen, og hins íslenska Sigga Eggertssonar. Þeir munu taka þátt í pallborðsumræðum þar sem umræðuefnið er hönnun á tímum breytinga.

Á HönnunarMars býðst tækifæri að auðga andann og hljóta innblástur af hinni taumlausu sköpunargleði sem ríkir innan hönnunarsamfélagsins. Við hlökkum til að sjá þig á HönnunarMars 2011 – taktu þátt í gleðinni og marseraðu með okkur um Reykjavíkurborg.



Glæsilegur dagskrárbæklingur HönnunarMars 2011 kemur út föstudaginn 19. mars, en dagskráin er nú þegar aðgengileg hér á vef Hönnunarmiðstöðvar sem og í nýjasta tölublaði The Reykjavík Grapevine, sem er helgað HönnunarMars að þessu sinni.



















Yfirlit



eldri fréttir