Á fjórða tug íslenskra hönnuða og arkitekta sýna verk sín á kaupstefnunni Stockholm Furniture Fair og hönnunarvikunni Stockholm Design Week sem hefjast í Stokkhólmi 7. febrúar nk.
Kaupstefnan er ein af þeim stærstu í Evrópu og óteljandi hönnunarviðburðir glæða stræti Stokkhólms óvæntu lífi. Gríðarmörg tækifæri felast í markvissri þátttöku.
Hönnunarmiðstöð Íslands varð þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið að setja sýninguna
Icelandic Contemporary Design upp á Stockholm Furniture Fair en hún var hönnuð sem farandsýning til að kynna íslenska hönnun utan landssteinanna og opnaði fyrst á Listahátíð í Reykjavík 2009. Rúmlega tuttugu hönnuðir og arkitektar eiga verk á sýningunni. Ferðalag sýningarinnar er liður í að færa íslenska hönnunarsenu nær þeirri skandinavísku sem þekkt er að verðleikum og viðurkennd um heim allan.
Auk sýningarinnar er að finna á kaupstefnunni hönnun frá íslensku fyrirtækjunum
Arkiteó,
FurniBloom,
Lighthouse og
Sýrusson.
Aurum opnar sýningu á skartgripum og borðbúnaði í hinu smáa en virta hönnunargallerýi,
Gallery Pascale og iðnhönnuðurinn
Sigga Heimis sem nýverið sýndi verk sín í Hönnunarsafni Íslands, tekur þátt í samsýningu um 20 virtra hönnuða í
Bilogiska Museet.
Ískaldir jöklar, lindavatn og hreinn krækiberjasafi stefna nú hraðbyri til Svíaveldis og eru framlag
Brugghúsins Mjöðurs í Stykkishólmi sem ásamt
Icelandic Water Holdings og
Íslenskri hollustu munu gefa tóninn í móttökum sem sendiherra Íslands í Stokkhólmi býður til í samstarfi við Hönnunarmiðstöð, við tvö tækifæri.
Móttökunum er ætlað að styrkja það tenglsanet sem þegar hefur verið unnið að undanfarin ár og til að mynda ný sambönd sem nýst geta íslensku hönnunarsenunni hvað varðar útflutning, umfjöllun og samstarf.
Allar nánari upplýsingar um sýningarnar og viðburðina veitir Kristín Gunnarsdóttir
kristin@honnunarmidstod.is í síma 771 2200 og Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar í síma 699 3600.