SÝNING - HÖNNUNARSAMKEPPNI UM HÚSGÖGN Í HÖRPU
OPNUN: 14. janúar 2011 kl. 17
Hönnunarsafn Íslands, Garðatorgi 1, 210 Garðabæ
Sýning á tillögum sem bárust í hönnunarsamkeppni um húsgögn í Hörpu verður opnuð nk. föstudag 14. janúar kl. 17 í Hönnunarsafni Íslands að Garðatorgi í Garðabæ.
Síðastliðið sumar var efnt til hönnunarsamkeppni um tillögur að húsgögnum í almenningsrými í Hörpu, Tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík. Samkeppnin var opin íslenskum hönnuðum og arkitektum og var haldin í samstarfi við Hönnunarmiðstöð. Eitt af meginmarkmiðum samkeppninnar var að efla vitund um íslenska hönnun og stuðla að auknum sýnileika hennar. Alls bárust 23 tillögur í samkeppnina sem var opin íslenskum hönnuðum.
Höfundar að verðlaunatillögunni eru þær Helga Sigurbjarnadóttir og Kristín Aldan Guðmundsdóttir innanhússarkitektar FHI. Samstarfsaðilar þeirra um framleiðslu húsgagnanna eru GÁ húsgögn, Stjörnustál, Pelco og Pólýhúðun, en skilyrði í samkeppninni var að húsgögnin yrðu framleidd hér á landi.
Í umsögn dómnefndar um verðlaunatillöguna kemur fram að hún búi yfir fágaðri og svipmikilli hugmynd sem falli vel að sterkum karakter hússins. Hreyfanleg formin bjóði upp á margvíslega notkun en styrkur tillögunnar felist ekki síst í einfaldleika hennar og sveigjanleika. Hugsað sé fyrir öllum aldurshópum og ólíkum þörfum eftir viðburðum í húsinu og að flókin úrlausnarefni séu leyst á hagkvæman og aðlaðandi hátt.
Einnig fengu tvær tillögur til viðbótar sérstaka viðurkenningu. Sú fyrri var
frá Dóru Hansen, Heiðu Elínu Jóhannsdóttur og Þóru Birnu Björnsdóttur innanhússarkitektum FHÍ en tillagan þótti djörf og vönduð með spennandi vali lita og efna. Sú síðari var frá
Guðrúnu Margréti Ólafsdóttur og Oddgeir Þórðarsyni innanhússarkitektum FHÍ hjá Go Form ehf en tillagan þótti glæsileg og bjóða upp á mikla möguleika með einföldum og afgerandi formum.
Dómnefndina skipuðu þau: Osbjörn Jacobsen arkitekt (Henning Larsen Architects), Soffía Valtýsdóttir arkitekt (Batteríinu), Katrín Ólína Pétursdóttir hönnuður (Hönnunarmiðstöð | Félag vöru- og iðnhönnuða), Hjalti Geir Kristjánsson húsgagnahönnuður (Hönnunarmiðstöð | Félag húsgagna- og innanhússarkitekta) og formaður dómnefndar, Þórunn Sigurðardóttir stjórnarformaður Ago (Portus).
Í samkeppnisgögnunum var lögð áhersla á að keppendur kynntu sér hönnun og efnisval hússins í heild sinni og hefðu til hliðsjónar við hönnun þess húsbúnaðar sem keppt var um. Húsið sækir form sitt til íslenskrar náttúru en það er hannað af arkitektastofunum Henning Larsen Architects í Danmörku og Batteríið arkitektar í Hafnarfirði. Litadýrðin frá íslenskri náttúru er ríkur hluti af innblæstrinum við hönnun hússins og þær andstæður sem birtast svo oft í náttúru Íslands koma víða fram. Marghliða glerhjúpur, svartir sjónsteyptir veggir og stórir einsleitir gólffletir eru táknrænir fyrir víðáttuna, fjöllin og ljósaganginn, ásamt samspili hafs og lands sem má finna í innviðum Hörpu.
Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhúsið verður opnað í maí á þessu ári og munu þá húsgögnin prýða húsið.
Sýningin stendur til 6. mars 2011
honnunarsafn.is
harpa.is
gardabaer.is