Arkitektastofan KRADS hefur getið sér gott orð fyrir verk sín á árinu. Stofan tók þátt í Tvíæringnum í Feneyjum, átti verðlaunatillögu á Arkitektúr Þríæringnum í Osló og fyrr í þessum mánuði hlaut stofan svo 1. verðlaun í samkeppni um heimili fyrir aldraða í bænum Thisted í Danmörku.
Kløvermarken heitir svæðið þar sem nýbyggingin mun rísa, en þar er nú þegar boðið upp á fjölbreytta þjónustu fyrir aldraða. Byggingin, sem er um 2700 m2 að stærð, mun innihalda 32 íbúðir auk sameiginlegra frístundarýma fyrir heimilisfólk og starfsmannaaðstöðu.
Falleg og nýstárleg túlkun á þeirri hefðbundnu múrsteinshúsabyggð sem byggingin skrifar sig inn í, ásamt vel leystu innra skipulagi, var samkvæmt dómnefnd það sem réði úrslitum um val tillögunnar.
Áætlað er að framkvæmdir hefjist á næsta ári og að byggingin verði tekin í notkun í byrjun sumars 2012.
krads.info