Fréttir

17.12.2010

Íslensk hönnun og ritsnilld í þágu fatlaðra barna og ungmenna

 
 
 
Jólakötturinn er viðfangsefni hönnuðanna Snæfríðar og Hildigunnar og rithöfundarins Þórarins Eldjárns, en þau leggja Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra lið í ár við gerð jólaóróans. Þær stöllur fást við stálið en Þórarinn við orðin.


Jólakötturinn er fimmti óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Frá upphafi hafa margir af þekktustu hönnuðum og skáldum okkar Íslendinga lagt félaginu lið við gerð óróanna. Þegar hafa Sigga Heimis og Sjón túlkað Kertasníki, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir og Andri Snær Magnason túlkað Hurðaskelli, Katrín Ólína Pétursdóttir og Hallgrímur Helgason Grýlu og Hrafnkell Birgisson og Gerður Kristný Ketkrók.

ALLUR ÁGÓÐINN Í ÞÁGU FATLAÐRA BARNA OG UNGMENNA
Æfingastöðin sem rekin er af Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra er langstærsti aðili í endurhæfingu barna og ungmenna á Íslandi. Þjónustuna nýta um 850 börn árlega, mörg hver oft í viku. Æfingastöðin gegnir því veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi og er starfið sem þar fer fram brýnt enda er markmið þjálfunarinnar að efla börn og ungmenni með skerta færni og stuðla að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu.

Allur ágóði af sölu óróanna rennur óskiptur til þróunar og eflingar þessa mikilvæga starfs.

ÓSLÓARTRÉÐ PRÝTT JÓLAÓRÓUM SLF
Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið en óróar Styrktarfélagsins hafa prýtt Óslóartréð, jólatré Reykvíkinga og verið eina skrautið á trénu utan jólaljósanna.

FALLEG GJÖF SEM GLEÐUR OG GEFUR
Óróarnir eru framleiddir hjá Geislatækni í Garðabæ og pakkað af einstökum áhuga og natni hjá Vinnustofunni Ási. Verkefnið er því atvinnuskapandi auk þess að sameina íslenska hönnun, ritsnilld, menningararf og gott málefni.

Sala óróans stendur frá 4. - 18. desember en hann er hægt að fá í Casa, Epal, Kraum, Kokku, Módern, verslunum Pennans og Eymundsson, Valrós Akureyri, Blóma og gjafabúðinni Sauðárkróki, Norska húsinu Stykkishólmi, Póley Vestmannaeyjum og hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra.

Nánari upplýsingar á www.slf.is og hjá Berglindi Sigurgeirsdóttur hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra s.695-9395.
















Yfirlit



eldri fréttir