Fréttir

3.12.2010

ÁL ER EKKI FISKUR | Minna hráefni, meiri vöruþróun


Grein í Fréttatímanum 3. desember 2010.

Greinarhöfundur: Hrafnkell Birgisson vöruhönnuður og fyrrverandi formaður Samtaka hönnuða.

Í vikunni var opinberuð kortlagning á hagrænum umsvifum skapandi greina á Íslandi. Það hefur komið betur í ljós hversu mikil verðmæti og störf þessar greinar leiða af sér. Þær reynast vera einn meginn burðarás íslensks atvinnulífs og vægi þeirra fer stöðugt vaxandi. Aðrir atvinnuvegir þurfa að byggja meira á aðkomu hinna skapandi greina varðandi þróun á vörum og ímynd.

Það ætti að vera leiðandi markmið stjórnvalda að framleiddar verði þróaðar og hannaðar vörur úr sem stærstum hluta af því mikla magni af áli sem flutt er úr landinu hrátt og óunnið.

Minna hráefni
Á síðustu árum hefur verið gríðarleg umræða um uppbyggingu stóriðju í landinu, aðallega orkuöflun fyrir álver með tilheyrandi stórframkvæmdum víða um land. Umræðan hefur fyrst og fremst snúist um óafturkræfanlega umhverfisröskun og orkusamninga við erlend stórfyrirtæki. Verkefnisstjórn um nýtingu á orku í Þingeyjarsýslu skilaði þeirri niðurstöðu um daginn að fleiri álver væru einu áhugaverðu og raunhæfu iðnaðarkostirnir á svæðinu. Áframhaldandi fjölgun álvera og útflutningur á hrááli mun koma í veg fyrir framþróun íslensks atvinnulífs og er á kostnað sjálfbærni, fjölbreyttni og ímyndarsköpunar. Furðulega lítið hefur verið rætt um þá möguleika sem felast í vöruþróun og framleiðslu úr áli á Íslandi.

Árið 1996 skipaði þáverandi Iðnaðarráðherra nefnd til að skila hugmyndum um hvernig hið opinbera geti stuðlað að frekari vinnslu úr áli. Það hafði löngu legið fyrir að markaðurinn fyrir framleiðslu úr áli færi stækkandi m.a. í bílaiðnaði, skipasmíðum, byggingariðnaði og annari framleiðslu á þróuðum og hönnuðum vörum. Nefndin leitaði ráða hjá íslenskum og útlendum sérfræðingum og tók skipulega fyrir ýmsa möguleika á framleiðslu úr léttmálmum hérlendis, s.s. völsun, þrýstimótun og steypun. Í skýrslu nefndarinnar frá því 1997 sagði m.a.

"Þótt hér sé framleitt ál er ekki sjálfgefið að við það náist svo mikið samkeppnisforskot að hagkvæmt verði að reisa hér völsunar- eða þrýstimótunarverksmiðju. Nálægð við markaði og þekking á þeim og stærðarhagkvæmi geta ráðið mestu um hvernig hinni fullunnu vöru reiðir af í samkeppninni. Þess vegna mun, svo dæmi sé tekið, ál til skipasmíði á Íslandi að öllum líkindum verða flutt inn frá erlendum völsunar- og þrýstimótunarverksmiðjum þó að álskip eigi eftir að ryðja sér æ meira til rúms, eins og sérfræðingar telja að verði raunin í náinni framtíð.”

Meiri vöruþróun
Í framhaldi af störfum nefndarinnar var stofnaður Málmgarður, með aðsetur í þáverandi Iðntæknistofnun, samráðsvettvangur fyrir vöruþróun, markaðs- og tæknirannsóknir, menntun og upplýsingamiðlun á sviði léttmálma. Það endurspeglaði hins vegar þekkingarleysi og skammsýni hérlendra stjórnvalda að verkefnið var keyrt á einum starfsmanni í hálfu starfi við að aðstoða frumkvöðla, fjárfesta og starfandi fyrirtæki í áliðnaði. Þrátt fyrir lítið bolmagn og stuttan líftíma vann Málmgarður ítarlega skýrslu með verkfræðinema í Háskóla Íslands um þrýstimótun á áli hérlendis.

Nú í haust tilkynnti Rio Tinto Alcan að framleiðsluferli álversins í Straumsvík yrði breytt og að frá 2014 yrðu einungis framleiddir boltar í stað barra. Þessi breyting opnar fyrir þann möguleika að hérlendis hefjist framleiðsla á álprófílum með þrýstimótun.

Grundvöllur gæti loksins verið að skapast fyrir fjölbreytta þróaða framleiðslu innanlands sem myndi stórauka útflutningsverðmæti á hverju tonni af áli. Álverin þurfa annars vegar að framleiða einingar sem íslenskur iðnaður getur tekið við og hins vegar vera tilbúin til að selja einingarnar til frekari vinnslu hérlendis. Stóra hindrunin gæti verið að álverin hér séu með sölusamninga á allri sinni framleiðslu og óttuðust samkeppni við dótturfyrirtæki sín m.a. í Evrópu sem vinna álið áfram.

Minna hráefni - meiri vöruþróun – meiri sérstaða - meiri verðmæti.

Meiri sérstaða
Með vöruþróun fyrir frekari vinnslu væri hægt að skapa nýjungar og sérstöðu og gjörbreyta ímynd álframleiðslu hérlendis. Engin þörf yrði á fjölgun álvera og þeim gæti fækkað í framtíðinni. Sérstæðar og rekjanlegar vörur úr áli, framleiddar á Íslandi úr endurnýjanlegri orku, fengju athygli á alþjóðlegum markaði þar sem fyrirtæki og almennir neytendur bíða eftir vörum úr vottuðu hráefni. Slík nálgun við vöruþróun og framleiðslu ætti einnig að laða að erlent fjármagn og þekkingu.

Í dag eru framleidd og flutt úr landinu árlega um 800.000 tonn af áli. Samkvæmt upplýsingum frá samtökum álframleiðenda sitja 40% af útflutningtekjunum eftir í landinu í formi launagreiðslna, skatta, orkukaupa og ýmissar þjónustu sem álfyrirtækin kaupa. Í dag er heimsmarkaðsverðið á einu tonni af hrááli yfir 2.000 USD en hver ætli séu möguleg hámarksverðmæti úr einu tonni?

Úrvinnsla áls er ekki bara spurning um að nýta hráefni heldur eru hér á ferðinni gífurlegir hagsmunir því kg verð á áli í hráframleiðslu frá álverum er mjög lítið í samanburði við kg verðið í álvörum sem við kaupum t.d. í gluggum, tröppum, rennum og öðrum vörum.  Ingólfur Þorbjörnsson framkvæmdastjóri Íslenskra Tæknirannsókna, Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Meiri verðmæti
Í ljósi þess að launakostnaður hérlendis hefur lækkað hafa opnast stór tækifæri fyrir samkeppnishæfa vinnslu og vöruþróun á þessu “innlenda hráefni”. Megin skilyrðið fyrir því er að hérlend fyrirtæki geti keypt hráefnið beint frá álverunum. Stjórnvöld ættu með Hönnunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands í fararbroddi að hrinda af stað átaki um vöruþróun úr áli þar sem keyrt verður á breyttum gildum og markmiðum en áður hefur verið gert.

Í framhaldinu mætti byggja upp klasa 5-10 fyrirtækja t.d. á Norður- og Austurlandi sem störfuðu í sameiningu að þróun, framleiðslu og útflutningi á fjölbreyttum vörum úr álprófílum. “Móðurfyrirtækið” myndi framleiða prófíla sem önnur minni fyrirtæki þróuðu svo margvíslegar umhverfisvottaðar vörur úr. Framleiðsla á vinnanlegu hráefni getur leitt af sér margfalt fleiri framleiðandi einingar á meira þróuðum vörum og þar með margfalt meiri verðmæti. Þessar einingar eiga að spretta upp á næstu árum á Íslandi. Ef starfrækt væru í landinu þrjú til fjögur alþjóðleg fyrirtæki á stærð við Össur og Marel sem myndu skapa sér sérstöðu við framleiðslu á hönnuðum vörum úr áli yrðu til mörg hundruð fjölbreytt störf fyrir fólk með allskonar sérþekkingu. Vörþróun og framleiðsla sem væri byggð á umhverfisvottuðu hráefni myndi vega á móti ókostum við fjarlægð til markaðar.

Hvað þarf til?

1. Aðgengi að hráefni en það veltur á samstarfsvilja álveranna í landinu.
2. Langtíma stuðningur opinbera aðila því það er langhlaup en ekki spretthlaup að byggja upp slíkan iðnað.
3. Viðskiptasambönd erlendis við umhverfissinnuð fyrirtæki með því að bjóða sérstæða og vottaða vöru.
4. Samstarf við erlend fyrirtæki og sérfræðinga væri nauðsynleg þar sem þekkingin er of takmörkuð hérlendis.
5. Erlent fjármagn í þróunarvinnuna mætti nálgast m.a. í gegnum evrópska nýsköpunarstyrki.
6. Þróun á hugmyndum í samstarfi innlendra og erlendra hönnuða, verkfræðinga og markaðsfræðinga til að tryggja sérstöðu vörunnar á alþjóðlegum markaði.

Höfundur er vöruhönnuður og fyrrv. formaður Samtaka Hönnuða


















Yfirlit



eldri fréttir