Toppstöðin, Fatahönnunarfélag Íslands og Félag vöru- og iðnhönnuða kynna í sameiningu, mánudaginn 29. nóvember kl. 20.00, í Toppstöðinni:
Er framtíðin fólgin í íslenskri hönnun?
Hönnuður og viðskiptafærni: nokkur nauðsynleg atriði fyrir þá sem hyggja á útrás.
Dr. Vlad Vaiman dósent og forstöðumaður MS/MBA námsins við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík hefur lýst því yfir að mikilvægur þáttur í efnahagsbata Íslands geti falist í útflutningi íslenskrar hönnunar. Hann álítur mikil verðmæti felast í íslenskri hönnun, en til þess að ná árangri verði að halda rétt á spöðunum. Íslenskir hönnuðir verði að læra að sjá gullið sem fólgið er í listsköpun sinni og viðskiptaþekking eykur líkurnar á árangri.
Toppstöðin, Fatahönnunarfélag Íslands og Félag vöru- og iðnhönnuða hafa fengið Vlad til að deila sýn sinni og gefa gagnleg ráð. Hönnuðir og skapandi frumkvöðlar eru hvattir til að láta þetta tækifæri sér ekki úr greipum ganga. Aðgangur er ókeypis en sætaframboð takmarkað. Skráning fer fram á
toppstodin@gmail.com og á gestalista á
fésbókarsíðu Toppstöðvarinnar.
Dr. Vlad Vaiman er fæddur í Rússlandi en hefur búið bróðurhluta ævi sinnar í Kanada, lauk doktorsgráðu í alþjóðaviðskiptum frá Sviss og MBA-gráðu frá Wyoming í Bandaríkjunum. Hann fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Íslands haustið 2008 og er dósent og forstöðumaður MS/MBA námsins við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Dr. Vlad hefur verið gestakennari við fjölda háskóla um heiminn og starfað við margvísleg ráðgjafarverkefni hjá fyrirtækjum m.a. í Bandaríkjunum, Kanada, Sviss, Austurríki, Tékklandi og Rússlandi. Dr. Vlad hefur rannsakað og ritað um menningarmun í alþjóðlegum fyrirtækjum, leiðtogafærni, hvatningu og hæfileika. Tvær bækur hafa komið út eftir hann og greinar birst í fjölmörgum viðurkenndum tímaritum. Hann er stofnandi og framkvæmdastjóri fagritsins European Journal of International Management (EJIM)
www.ejim-global.org .