Fréttir

29.10.2010

Skúlaverðlaunin 2010

 

Orri Hauksson framkvæmdastjóri Samtaka
iðnaðarins afhenti
Kristínu Sigfríði Garðarsdóttur
Skúlaverðlaunin 2010


Margrét Guðnadóttir og Kristín Sigfríður
Garðarsdóttir

Sýningin Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur opnaði í gær kl. 17.00 að viðstöddu fjölmenni. Þetta er í fimmta sinn sem HANDVERK OG HÖNNUN stendur fyrir og skipuleggur þennan viðburð.

Það er óhætt að segja að sýningunni hafi verið vel tekið undanfarin ár og hefur aðsóknin verið mjög mikil. Þetta er kjörið tækifæri fyrir alla að kynna sér fjölbreytt íslenskt handverk, listiðnað og hönnun. Það eru listamennirnir sjálfir sem kynna vörur sínar. Gróskan og fjölbreytnin hefur aldrei verið meiri, rúmlega 60 aðilar sýna verk sín.

Efnt var til verðlaunasamkeppni um besta nýja hlutinn meðal þátttakenda í sýningunni. Verðlaunin eru kennd við Skúla Magnússon fógeta sem er frumkvöðull smáiðnaðar í Reykjavík. Fagleg valnefnd sem Friðgerður Guðmundsdóttir vöruhönnuður, Karólína Einarsdóttir leirlistamaður og vöruhönnuður og Halla Bogadóttir gullsmiður og framkvæmdastjóri skipuðu valdi sigurvegara.  Verðlaunin eru styrkt af Samtökum iðnaðarins og framkvæmdastjóri SI, Orri Hauksson afhenti þau í gærkvöldi.

Kristín Sigfríður Garðarsdóttir hlaut Skúlaverðlaunin 2010 fyrir ný glös á fæti á sýningunni. Glasið er viðbót við glerlínu Kristínar sem hefur fengið nafnið „diskó“. Í diskó línunni eru nú fjórar gerðir af glösum, þrjár gerðir af skálum og karafla.

Margrét Guðnadóttir fékk viðurkenningu fyrir verkið „Sprelli Gnarr”. Kveikjan af þessu verki var setning sem höfð var eftir núverandi borgarstjóra Jóni Gnarr sem voru: „Það er allt í lagi að vera með fíflagang ef það fer ekki út í sprell”. Margrét gerði fjóra útgáfur af „Sprelli Gnarr”.

Sýningin er opin:
Föstudag 29. október kl. 10 – 19
Laugardag 30. október kl. 10 – 18
Sunnudag 31. október kl. 10 – 18
Mánudag 1. nóvember kl. 10 – 19

Þetta segir í frétt á vef HANDVERKS OG HÖNNUNAR
















Yfirlit



eldri fréttir