Fréttir

19.10.2010

Námsstefna með Siggu Heimis




Vinnusmiðja Staður:
Gamla Hagkaupshúsið á Garðatorgi 1 í Garðabæ

Dags:
1. Föstudagur 5. nóvember, kl. 9-15. Vinnusmiðja (35 manns)
2. Föstudagur 12. nóvember, kl. 9-15. Vinnusmiðja (35 manns)


Þann 5. og 12. nóvember nk. standa Hönnunarsafn Íslands og fræðslu- og menningarsvið Garðabæjar fyrir námsstefnu, þar sem viðfangsefnið verður “Að hanna á umhverfisvænan hátt, endurnýting og endurvinnsla”.

Námsstefnan er í tengslum við sýningu Hönnunarsafns Íslands á verkum Siggu Heimis iðnhönnuðar. Hún er ætluð hönnuðum, nemum í hönnun list- og verkgreinakennurum og kennurum í nýsköpun og hönnun á leik-, grunn og framhalds- skólastigi á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirlesari verður Sigga Heimis einn af aðalhönnuðum IKEA á þessum áratug sem er að líða en hún lauk mastersgráðu í hönnun frá Domus Academy í Mílanó.

Námsstefnan er í formi vinnusmiðju þar sem unnið er með endurnýtingu og endurvinnslu á borðinu LACK sem er eitt mest selda borð í heimi. Þar verða kynntar skemmtilegar hugmyndir um fjölnota hönnun sem er hluti af hugmyndafræði um umhverfisvæna hönnun og hefur það markmið að lengja líftíma hluta. Það getur þýtt að vöruna megi nota á marga vegu og að hún geti haft fleiri en einn tilgang.

Á námsstefnunni fá nemendur beinan aðgang að frábærum kennara og efnisveitu. Þátttakendur geta líka nýtt efni að heiman og valið ólíkan efnivið til að gera borðið eða annað efni að „sinni hönnun“ og velt fyrir sér formi og notagildi með ábyrga umhverfisvitund í huga. Verkin sem þátttakendur námstefnunnar vinna að fara á sýningu hjá IKEA á Íslandi.

Í verkum sínum og í samvinnu við framleiðendur hefur Sigga kappkostað að taka tillit til umhverfisins, orkusparnaðar og endurvinnslu. Umhverfisvæn hönnun þarf ekki að koma niður á útliti, notagildi né söluvænleika gripa. Hugmyndin er oft að vinna með kaupandanum þar sem notandinn setur vöruna sjálfur saman. Þetta er grunnur að hugmyndafræði IKEA sem hefur haft áhrif á aðra framleiðendur um víða veröld.

Sigga á að baki farsælan feril og ríkulegt samstarf við þekktustu framleiðslufyrirtæki, söfn og háskóla á sviði hönnunar í heiminum. Hönnun hennar hefur verið fjöldaframleidd í mörg ár hjá fyrirtækjum eins og IKEA, Fritz Hansen, Vitra Design Museum, Mio, Indiska og fleirum.
www.labland.se

Verkefnisstjóri námsstefnunnar er Árdís Olgeirsdóttir, fræðslu- og kynningarfulltrúi í Garðabæ. ardisol@gardabaer.is

ATH. Takmarkaður fjöldi. 35 manns í hvort skipti.

Námsstefnugjald: 8000 kr Innifalið er: LACK borð, efni í efnisveitu, sýningarskrá, kaffi og hressing.

Skráning: ardisol@gardabaer.is Nánari upplýsingar verða sendar út til þátttakenda.

Námsstefnan er styrkt af IKEA
















Yfirlit



eldri fréttir