Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar býður, í samvinnu við Arkitektafélag Íslands, til hádegisfunda á fimmtudögum í salarkynnum sviðsins á 7. hæð Höfðatorgi.
Fyrsti fundur verður á fimmtudaginn kemur, 16. september kl. 12
Hugleiðingar - spjall - léttar veitingar
Hvernig sér siðfræðin stöðu sérfræðinga í okkar samhengi?
Hvert hyggst nýtt afl í borginni stefna á næstu misserum?
Hvernig má skoða borgina og byggingar hennar frá nýjum vinklum?
Hvernig sér akademían fortíð og framtíð frá sjónarhóli arkitektúrs og borgarfræða?
Undanfarinn vetur stóð Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar fyrir morgunfundum, þar sem undirbúningur nýs aðalskipulags var kynntur og borgin skoðuð bæði frá sjónarhóli stofnunarinnar, akademíunnar, grasrótar og annarra lærðra og leikinna. Þá hélt Arkitektafélag Íslands hádegisfundi þar sem félagsmenn lögðu á ráðin með skref til nýrrar framtíðar.
Nú hefur Skipulags- og byggingarsvið, í samvinnu við Arkitektafélag Íslands, ákveðið að efna til hádegisfundaraðar í húsakynnum Reykjavíkurborgar að Höfðatorgi. Á hverjum fundi mun gestur sá fræi í stuttu framsöguerindi og gefst félagsmönnum síðan tækifæri til óformlegra samræðna yfir léttum veitingum í boði hússins.
Því hefur verið haldið fram að oft skorti okkur arkitekta orðræðu til að gagnrýna samhengi okkar á uppbyggilegan hátt. Fundaröðinni er ætlað að vera innspýting í gagnrýna orðræðu okkar, fá fólk innan búðar sem utan til að leggja til, skerpa á og endurvekja hugmyndafræði og rökræður.
Það er augljóst að um þessa tíma munu ekki standa margir byggðir varðar. Hvað viljum við, sem samfélag sérfræðinga, sjá koma út úr núverandi ástandi? Hvar viljum við standa í endurskoðun og uppgjöri þegar hjólin fara í gang aftur? Á hverra forsendum viljum við sjá hjólin snúast?
"Við notum [hugmyndir og skoðanir] til að átta okkur á hlutunum í því skyni að breyta þeim, njóta þeirra eða til að hagnýta okkur þá á einn eða annan máta. Þess vegna eigum við að hirða vandlega um hugmyndir okkar og skoðanir, ekki láta neitt tækifæri ónotað að skýra þær og skerpa og umfram allt þurfum við að gæta þess að vanhugsaðar skoðanir stýri ekki ákvörðunum okkar og athöfnum."
Páll Skúlason (1987). Pælingar. Reykjavík: Ergon, bls.69.
Þessum spurningum verður augljóslega ekki svarað í einu vetfangi, en það er von aðstandenda að hér sé sáð til styrktrar áframhaldandi rökræðu félagsmanna.
www.ai.is