Laugardaginn
14. ágúst var opnuð sýning Mupimup í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í tengslum við
bæjarhátíðina Ormsteiti. Með
þessari sýningu var formlega opnað fyrir sölu á Mupimup hönnun. Sýningunni lýkur á sunnudaginn 29.
ágúst.
Mupimup
er lítið hönnunarstúdíó sem var stofnað árið 2008. Þetta er samstarf tveggja hönnuða, sem eru þau Zdenek Patak
(grafískur hönnuður) og Rósa Valtingojer (textíl- og keramikhönnuður). Saman hanna þau vörur úr hlutum og efni
sem tapað hefur verðgildi sínu.
Eins og stendur eru þau að vinna úr efni eins og PET, plexígleri og
fatnaði. Þetta efni nota þau í
ljósa- og textílhönnun. Hluti af
hönnunarvinnunni fer fram í samstarfi við aðra listamenn, hönnuði og vini.
Rósa
og Zdenek eru búsett á Stöðvarfirði og þar eru starfsstöðvar Mupimup. Rósa er fædd og uppalin á staðnum en
Zdenek fluttist þangað í byrjun árs 2007 frá Prag í Tékklandi, þar sem hann
stundaði nám við Hönnunar og Listaháskólann AAAD. Þetta verkefni er tilraun þeirra til atvinnusköpunar í
þorpinu, þar sem litla sem enga vinnu er að hafa. Þá eru þau ekki aðeins að hugsa um að skapa sjálfum sér
atvinnu. Þau horfa til framtíðar
og sjá þann möguleika að þetta verkefni geti vaxið og dafnað og fleira fólk
komi að þessu.
Tvímenningarnir
í Mupimup eru mikið að vinna með og rannsaka hönnun í samhengi við
umhverfið. Þau vilja miðla því og
sýna fram á ábyrgðina sem hönnuðir eiga að axla gagnvart umhverfinu. Af þessum ástæðum er þeim Rósu og
Zdenek boðið til Konstfack, listaháskólans í Stockholm, til að halda viku
námskeið sem ber yfirskriftina Sustainable design.
Þau Rósa og Zdenek láta þó ekki þar við
sitja því þau hafa fleiri verkefni í vinnslu. Í sumar stofnuðu þau ásamt fjórum vinum sínum lítið kaffihús
í Gallerí Snærós á Stöðvarfirði. Þau nefndu þetta verkefni Stofnsjóður kaffi- og menningarmiðstöðvar
Stövarfjarðar. Þar var boðið upp á hágæða kaffi frá El Salvador. Kaffið var ristað á staðnum og var því
alltaf ferskt. Það var framreitt
eftir kúnstarinnar reglum úr alvöru expressovél. Viðskiptavinirnir gátu svo greitt fyrir kaffið með frjálsu
framlagi. Þetta verkefni
hlaut vægast sagt góðar viðtökur. Það þróaðist svo þannig að þessi félagsskapur sexmenninganna auk annarra
er nú að vinna í því að fá frystihúsið á Stöðvarfirði undir Samfélags- og
menningarmiðstöð. Húsið
er um 3000 m2 og stóð til að rífa það, en engin vinnsla hefur verið þar
undanfarin ár. Þessi félagsskapur
er nú búinn að fylla þessa 3000 m2 af góðum hugmyndum, sem lauslega ágiskað
gætu skapað um 15 manns atvinnu og þar fyrir utan fyllt þennan svefnbæ af lífi
og menningu.
Af þessum hugmyndum
má nefna: Kaffihús, litlar
verslanir og markaði, félagsrými, listamannaíbúðir, opnar vinnustofur og
hljóðver, Mupimup vinnustofu og verslun. Þetta verkefni er nú á byrjunarstigi og mikil vinna
framundan, en þetta væri
óneitanlega það besta sem gæti komið fyrir þetta litla sjávarþorp sem liggur nú
í dvala og á sífellt í vök að verjast.
Þar hefur leiðin aðeins legið niður á við síðan Samherji lokaði
fiskvinnslustöð sinni árið 2005. Sífellt er verið að skera niður þjónustu í bænum, nú síðast var ákveðið
að loka útibúi Landsbankans og útibúi Íslandspósts.
Mupimup,
er að hefja Eco-hönnunarvinnslu á Stöðvarfirði. Svo er það félagsskapurinn sem beitir sér fyrir því að
bjarga frystihúsinu, sem er svo táknrænt fyrir atvinnulíf staðarins. Þessi tvö öfl gefa Stöðvarfirði von um
bjartari framtíð.
mupimup.net