Fréttir

26.8.2010

Hugmyndasmiðjan 2010

Í september mun Hugmyndahús háskólanna hleypa af stokkunum  Hugmyndasmiðjunni 2010 fyrir frumkvöðla sem ganga með hugmynd í maganum eða eru komnir skammt á veg og vilja koma henni í framkvæmd. Hér verður spyrnt saman skapandi greinum, tækni, vísindum og viðskiptum því allir eru velkomnir.

í Hugmyndasmiðjunni vinna þátttakendur að því að ramma inn sína hugmynd og í lok smiðjunnar eiga þeir að vera í stakk búnir til að hefja vinnslu viðskiptaáætlunar.

Hugmyndasmiðjan verður sjósett 2. september kl. 17.15 og stendur í 6 vikur.
Fyrirlestrar verða haldnir á fimmtudögum kl. 17.15 og vinnusmiðjur á laugardögum milli kl. 10.00 og 13.00. Í lokin verður úthlutað 6 hvatningarverðlaunum að upphæð 500.000 kr. hver til þeirra hugmyndasmiða sem þykja hafa unnið best úr sinni hugmynd.  

Hvað er Hugmyndasmiðjan 2010?
6 vikna samstarf með hugmyndir þátttakenda sem endar á stuttri kynningu eða “Sjósetningu Hugmyndarinnar”. Tekin verða fyrir fjármál sprotafyrirtækja, markaðssetning, ímyndarsköpun og framsetning hugmyndarinnar. Í lokin verða síðan veitt 6 hvatningarverðlaun fyrir bestu vinnuna og kynninguna. 

Fyrir hverja er Hugmyndasmiðjan?
Þá sem eru með hugmynd að vöru eða þjónustu og vilja gera hana að veruleika. Einstaklinga sem vilja skapa sér tækifæri í sínu fagi og vaða út fyrir þægindarammann. Við höfum aðstöðuna, tengslin, reynsluna og hvatningarverðlaunin til að koma þeim af stað, þeirra er áskorunin og vinnan við að takast á við ferðalagið sem og að koma sér á áfangastað. 

Hvað færðu út úr Hugmyndasmiðjunni? 
  • Aðstoð við að kortleggja hugmyndina þína og undirbúa gerð viðskiptaáætlunar.
  • Hagnýta þekkingu á fjármála og styrkjaumhverfinu.
  • Aðstoð við ímyndarsköpun og gerð markaðsáætlunar
  • Praktískar vinnusmiðjur í skapandi umhverfi
  • Ómetanlegt tengslanet
  • Umfram allt frábæra skemmtun! 

Hvar verður Hugmyndasmiðjan til húsa?
Samstarfssamningur hefur verið gerður við Faxaflóahafnir um afnot af Bakkaskemmu við Grandagarð 16, annarri hæð og hefur hún hlotið nafnið Útgerðin. Skemman er fyrrum netaverkstæði og vel til þess fallin að hýsa skapandi frumkvöðlastarf. 

Styrktaraðilar Útgerðarinnar eru Íslandsbanki, N1, Marorka, Jónar Transport, Vís og Síminn.  

Ekki er greitt fyrir þáttöku í Hugmyndasmiðjunni. ATH. Takmarkað sætaframboð. 

Umsóknum skal skila rafrænt á www.hugmyndahus.is Einnig má senda fyrirspurnir á hugmyndasmidjan@hugmyndahus.com 

Frekari upplýsingar veita: Ingibjörg Gréta Gísladóttir í síma 695 4048 og Ágúst Önundarson í síma 823 8599.


Hvað er Hugmyndahús háskólanna?
Hugmyndahús háskólanna er frumkvöðlasetur sem sameinar heim skapandi greina, tækni, vísinda og viðskipta með það að markmiði að skapa 50 fyrirtæki og 500 störf á tveimur árum.
Verkefninu er ætlað að gefa til samfélagsins, styðja við nýsköpun og skapa fólki með hugmyndir vettvang til að láta þær rætast. Leigan er lág en íbúar þurfa að vera tilbúnir að láta vinnu og
umhyggju í té. Með því að gerast íbúi í Hugmyndahúsinu gangast allir undir samfélagslega ábyrgð þess og þurfa að vera tilbúnir til að láta gott af sér leiða.
Íbúar Hugmyndahússins þurfa einnig að setja sér vinnumarkmið til 3,6 eða 9 mánaða og vera tilbúnir til að deila þeim með öðrum en gildi hússins eru samvinna, sköpun og sjálfbærni.
Hugmyndahúsið vinnur stöðugt að því að breyta heiminum og býður öllum sprotum upp í dans. Við viljum standa að kröftugu samfélagi sprota og frumkvöðla og tengja þá áfram til góðra verka
og vera fjöltengi þeirra verkefna sem veljast inn. Við bjóðum upp á nálægð við reynslubolta og hugmyndasmiði framtíðarinnar í opnu og fersku rými og ætlum að vera leiðandi í heimi frumkvöðla og nýsköpunar.
















Yfirlit



eldri fréttir