Fréttir

12.7.2010

SPITAL sigraði í keppni um hönnun á nýjum Landspítala



Hönnunarteymið SPITAL varð hlutskarpast í samkeppni um byggingu nýs Landspítala og húsnæðis fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Tilkynnt var um þetta við athöfn á Háskólatorgi 9. júlí síðastliðinn.

Fimm hönnunarteymi tóku þátt í samkeppni um frumhönnun nýja spítalans en þau skiluðu 10. júní gögnum til Ríkiskaupa. Að því loknu fór níu manna dómefnd, auk fjölmargra óháðra ráðgjafa, yfir samkeppnistillögurnar.

Ein af meginforsendum hönnunarsamkeppninnar var að flytja starfsemi Landspítala í Fossvogi að Hringbraut og ljúka þannig sameiningu stóru spítalanna á höfuðborgarsvæðinu. Samkeppnin var tvíþætt og tók annars vegar til tillögu að áfangaskiptu skipulagi Hringbrautarlóðarinnar og hins vegar tillögu að frumhönnun 1. áfanga verkefnisins, sem samanstendur af spítalastarfsemi í 66.000 m² nýbyggingu og háskólastarfsemi í allt að 10.000 m² nýbyggingu.

Stakkur sniðinn að vexti

„Nú hillir undir að framkvæmdir hefjist við eitt metnaðarfyllsta verkefni heilbrigðiskerfisins um langa hríð,“ sagði Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra við athöfnina. Bygging nýs Landspítala hafi verið í burðarliðnum um árabil og áformin tekið miklum breytingum á þeim tíma. Mestu muni þar um efnahagshrunið haustið 2008 en í kjölfarið hafi þurft að endurskoða öll fyrri byggingaráform.

„Fyrir vikið er sú hugmynd sem hér er kynnt talsvert smærri í sniðum og ekki eins ríkmannleg og lagt var upp með á tímum ofþenslu. Stakkur hefur verið sniðinn eftir vexti,“ sagði ráðherra.

Í SPITAL teyminu eru ASK arkitektar, Bjarni Snæbjörnsson arkitekt, Kanon arkitektar, Medplan, Teiknistofan Tröð, Landark, Efla verkfræðistofa, Lagnatækni og Norconsult.

Í umsögn dómnefndar er vinningstillögunni lýst sem sterkri hugmynd og höfundar nái vel því markmiði sínu að skapa „bæjarsamfélag sem myndar ramma um þverfaglegt samstarf ólíkra greina”.

Hönnunarsamkeppnin er síðasta verk verkefnisstjórnar um nýjan Landspítala því um miðjan júní 2010 samþykkti Alþingi lög um stofnun opinbers hlutafélags sem standa mun að undirbúningi og útboði á byggingu nýs háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Félagið, sem er að taka til starfa, fær lokaskýrslu verkefnisstjórnar þar sem m.a. er lagt til að samið verði við SPITAL um forhönnun bygginga og skipulagsmál en forhönnun og útboðsgögn vegna framkvæmda eiga að liggja fyrir vorið 2011. Gert er ráð fyrir alútboði og að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu til allt að 40 ára þegar byggingaverktaki hefur lokið umsömdu verki.

Samkvæmt áætlunum verkefnisstjórnar, sem fékk heimild heilbrigðisráðherra til að vinna verkefnið áfram í framhaldi af viljayfirlýsingu við lífeyrissjóðina í nóvember 2009, ættu jarðvegsframkvæmdir að geta hafist sumarið 2011.

Vinningstillaga SPITAL sem og hinar tillögurnar fjórar í hönnunarsamkeppninni verða almenningi til sýnis á Háskólatorgi fram eftir ágústmánuði.

Upplýsingar um keppnistillögurnar, niðurstöðu dómnefndar og vinningstillöguna má finna á vef nýja háskólasjúkrahússins.

















Yfirlit



eldri fréttir