Samkomulag um sóknarverkefni utanríkisþjónustunnar á sviði menningarkynningar erlendis var undirritað í utanríkisráðuneytinu 30. júní sl.
Menningarkynning og stuðningur við markaðssókn menningar er mikilvægur og vaxandi liður í starfsemi sendiráðanna og liður í orðsporsvinnu þeirra.
Sóknarverkefnin þrjú hafa að markmiði að efla samstarf og samstilla krafta sendiráða Íslands og Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Bókmenntasjóðs og Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar. Þá hafa verið settar verklagsreglur sem miða að því að gera starf sendiráðanna enn faglegra, markvissara og árangursríkara.
Sóknarverkefnin þrjú fela í sér að utanríkisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið leggja til 1 milljón kr. til hvers verkefnis á móti framlagi miðstöðvanna og samstarfsaðila þeirra.
Átaksverkefnið Bókmenntakynning sendiráða hefur að markmiði að efla bókmenntakynningu sendiráða og stuðning þeirra við markaðssókn á því sviði og verður hún meðal annars tengd heiðursþátttöku Íslands á stærstu bókasýningu heims í Frankfurt á næsta ári. Bókmenntasjóður annast framkvæmd verkefnisins í samstarfi við Árnastofnun, Sagenhaftes Island verkefnið, bókaútgefendur og fleiri. Útbúinn verður kynningarpakki með sýnishorni íslenskra bókmennta frá fornsögum til samtímabókmennta, bæklingum um íslenskar bókmenntir, veggspjöldum og fræðsluefni, rafrænni kynningu sem auðveldar sendiráðunum að koma íslenskum bókmenntum á framfæri í samstarfi við erlenda samstarfsaðila. Samkomulagið felur einnig í sér að Bókmenntasjóður veitir sendiráðum faglega ráðgjöf við bókmenntakynningu erlendis.
Átaksverkefni á sviði hönnunar og arkitektúrs miðar að því að gera utanríkisþjónustuna vel í stakk búna til að kynna og styðja við útflutning á íslenskri hönnun og arkitektúr. Verkefnið tengist m.a. hönnunarsýningunni Íslensk samtímahönnun sem nú fer um heiminn, og ljósmyndasýningu sem sett verður upp í sendiráðum og sendiráðsbústöðum. Hönnunarmiðstöð annast framkvæmd verkefnisins sem felur í sér gerð kynningarefnis, prentuðu og rafrænu, faglegri ráðgjöf til sendiráðanna, og aðstoð við eflingu tengslanets á sviði hönnunar erlendis.
Þriðja átaksverkefnið er Kynning á íslenskri samtímamyndlist erlendis. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar (KÍM) í samráði við Listasafn Íslands og sendiherra í sendiráðum Íslands í Peking, Berlín, Kaupmannahöfn og París velja listaverk eftir íslenska samtímamyndlistarmenn til að kynna í sendiherrabústöðum. Markmiðið er að stuðla að markvissri kynningu á samtímamyndlist og styðja sérstaklega við viðkomandi listamenn í hlutaðeigandi löndum. KÍM annast framkvæmd verkefnisins sem m.a. felst í að taka saman kynningarefni fyrir sendiráðin um íslenska myndlist og viðkomandi listamenn og verk þeirra, gera tillögu að fræðslu- og ítarefni, og faglegri ráðgjöf og aðstoð við að efla faglegt tengslanet sendiráða á myndlistarsviðinu erlendis. Þá mun miðstöðin gera tillögur um hvernig haga megi kynningu á íslenskri myndlist í sendiráðum Íslands í framtíðinni.