Stofnfundur Íslandsstofu var haldinn sl. þriðjudag og hóf hún formlega
rekstur 1. júlí. Íslandsstofa sameinar starfsemi Útflutningsráðs,
Fjárfestingarstofu og erlent markaðsstarf Ferðamálastofu. Íslandsstofa
verður þó annað og meira en einföld samlagning þeirrar starfsemi sem
þegar er fyrir hendi, því henni er ætlað víðtækara starf sem snýr m.a.
að því að styrkja ímynd og orðspor Íslands og styðja við kynningu á
íslenskri menningu erlendis. Íslandsstofa verður til húsa í Borgartúni
35, Reykjavík, í Húsi atvinnulífsins þar sem Útflutningsráð hafði áður
skrifstofur sínar.
„Við erum þess fullviss að hér er verið að stíga gæfuspor í átt að
öflugu þjónustufyrirtæki útflutningsatvinnuveganna og breiðum
samráðsvettvangi um málefni og verkefni sem tengjast viðskipum og
viðskiptahagsmunum Íslendinga á erlendri grund“ segir Friðrik Pálsson
framkvæmdastjóri Hótels Rangár og formaður stjórnar Íslandsstofu.
Aðrir í stjórn eru Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda, Einar
Karl Haraldsson ráðgjafi, Innform, Kolbrún Halldórsdóttir, formaður
Bandalags íslenskra listamanna, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri,
Sigsteinn Grétarsson, forstjóri Marel á Íslandi og Vilborg Einarsdóttir,
framkvæmdastjóri Mentor.
Nánari upplýsingar veitir Lilja Viðarsdóttir kynningarstjóri, sími 511
4000,
lilja@islandsstofa.is.